Íslenski boltinn

Aftur­elding fær Aron frá Brann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jónsson hefur búið undanfarin þrettán ár í Noregi.
Aron Jónsson hefur búið undanfarin þrettán ár í Noregi. @aftureldingknattspyrna

Lengjudeildarlið Aftureldingar hefur styrkt sig fyrir átökin í sumar en félagið hefur samið við nítján ára varnarmann.

Sá heitir Aron Jónsson, er íslenskur og skrifar undir eins árs samning við Aftureldingu.

Aron hefur samt búið í Noregi frá sex ára aldri og undanfarin ár verið á mála hjá stórliði Brann. Síðastliðið tímabil var hann fastamaður í varaliði Brann sem leikur í norsku C-deildinni en árið áður vann hann D-deildina með liðinu.

Aron á einnig einn leik að baki með aðalliði Brann sem og tvo leiki með U19 ára landsliði Íslands. Aron æfði með Aftureldingu í byrjun árs og skoraði í 3-1 sigri á HK í Þungavigtarbikarnum en hann er nú formlega genginn til liðs við Aftureldingu.

„Mér líst mjög vel á að vera kominn í Aftureldingu. Hópurinn góður og þetta er flott þjálfarateymi. Afturelding er að spila skemmtilegan bolta sem mér finnst ég passa vel inn í. Markmiðin hjá Aftureldingu eru skýr fyrir sumarið og ég hef fulla trú á okkur. Fyrstu dagarnir í Mosó hafa verið viðburðaríkir. Nóg að gera og mikið að segja sig inn í. Hér hefur verið tekið mjög vel á móti mér. Að lokum bindi ég miklar vonir fyrir góðri stemningu á leikjunum í sumar og vona að sem flestir mæti á leikina hjá okkur. Áfram Afturelding,“ sagði Aron í viðtali við miðla Aftureldingar.

„Aron stóð sig vel þegar hann var hjá okkur í byrjun árs og það er fagnaðarefni að hann sé genginn til liðs við Aftureldingu. Aron er með fína leikreynslu að baki í meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur og hann hefur alla burði til að taka áfram miklum framförum hér í Mosfellsbæ,“ er haft eftir Magnúsi Má Einarsson, þjálfara Aftureldingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×