Íslenski boltinn

Stefán klár í sam­keppni við einn þann besta á landinu

Sindri Sverrisson skrifar
Stefán Þór Ágústsson er mættur á Hlíðarenda og byrjaður að æfa með Val.
Stefán Þór Ágústsson er mættur á Hlíðarenda og byrjaður að æfa með Val. Valur

Valsmenn hafa klófest markvörðinn Stefán Þór Ágústsson en þessi 22 ára gamli markvörður kemur til félagsins frá Selfossi.

Stefán hefur þrátt fyrir ungan aldur þegar spilað samtals hundrað deildarleiki fyrir Selfoss, í næstefstu og þriðju efstu deild. Hann ætlar sér að veita Frederik Schram, aðalmarkverði Vals síðustu misseri, samkeppni um stöðu í byrjunarliðinu:

„Auðvitað, öll samkeppni er góð fyrir mann og hvað þá þegar maður er að keppast um stöðu við einn þann besta á landinu. Ég mun gera allt til þess að bæta mig og Frederik sem leikmenn. Ég er spenntur fyrir komandi leiktíð og fá að vinna með honum,“ segir Stefán í tilkynningu á Facebook-síðu Vals.

Þar fagnar Arnar Grétarsson þjálfari Vals sömuleiðis komu Stefáns, en markvörðurinn Sveinn Sigurður Jóhannesson er farinn frá félaginu:

„Það er frábært að fá Stefán Þór til okkar sem er þrátt fyrir ungan aldur hörku markvörður með mikla reynslu. Hann hefur verið að æfa með okkur síðustu vikur og komið virkilega vel út á æfingum. Frábær viðbót við okkar flotta hóp,“ segir Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×