Erlent

Finnar og Banda­ríkja­menn undir­rita varnarsamning í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkomulagið heimilar Bandaríkjunum að senda hermenn til Finnlands og geyma þar vopn og skotfæri.
Samkomulagið heimilar Bandaríkjunum að senda hermenn til Finnlands og geyma þar vopn og skotfæri. AP/Heikki Saukkomaa

Stjórnvöld í Finnlandi munu í dag undirrita varnarsamning við Bandaríkin sem greiðir meðal annars fyrir umsvifum Bandaríkjahers í landinu. 

Finnland gekk í Atlantshafsbandalagið fyrr á þessu ári, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Landamæri Finnlands og Rússlands telja um 1.340 kílómetra.

Samkomulagið er sagt munu auðvelda hernaðarsamstarf ef til átaka kemur en samkvæmt því mun Bandaríkjaher hafa óhindrað aðgengi að fimmtán svæðum í Finnlandi, þar sem hann má meðal annars geyma vopn og skotfæri.

Um er að ræða meðal annars fjóra herflugvelli, höfn og lestarsamgöngur til norðurhluta Finnlands.

Svíar undirrituðu áþekkan samning við Bandaríkin í síðustu viku, þar sem fjallað er um aðgengi Bandaríkjahers að sautján svæðum í Svíþjóð, meðal annars herflugvöllum, höfn og herbúðum.

Svíar bíða þess að verða veitt full aðild að NATÓ en hafa sætt töfum af hálfu Tyrklands og Ungverjalands.

Samkomulag Finna og Bandaríkjamanna kveður á um fasta viðveru Bandaríkjahers í landinu en engar áætlanir eru uppi um slíkt eins og stendur. Bandaríkjamenn mega hins vegar ekki nota aðstöðuna til að geyma eða flytja kjarnorku- eða efnavopn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×