Erlent

Skot­á­rás í Las Vegas: „Flýið, felið ykkur, berjist“

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar á lóð háskólans.
Lögregluþjónar á lóð háskólans. AP/Steve Marcus

Lögreglan var kölluð að lóð Háskóla Nevada í Las Vegas í Bandaríkjunum í kvöld vegna skothríðar sem heyrðist á lóðinni. Þrír liggja í valnum, auk árásarmannsins, og einn er særður.

Skömmu eftir að skothríðin heyrðist sendu forsvarsmenn skólans út skilaboð um skothríðina og sögðu nemendum að flýja, ef þeir gætu.

„FLÝIÐ, FELIÐ YKKUR, BERJIST,“ stóð í skilaboðum skólans á X, áður Twitter.

Samkvæmt AP fréttaveitunni hófst skothríðinni á viðskiptadeild háskólans en síðar heyrðist skothríð í annarri byggingu.

Fyrst sagði lögreglan að árásarmaðurinn hefði verið einangraður en staðfesti síðar að hann væri látinn. Það var um fjörutíu mínútum eftir að útkallið barst.

Lögreglan segir ógnina yfirstaðna og að tilefni árásarinnar liggji ekki fyrir enn.

Ein mannskæðasta skotárás Bandaríkjanna var gerð í Las Vegas árið 2017. Þá skaut maður sextíu manns til bana og særði hundruð til viðbótar, þegar hann skaut á tónleikagesti út um glugga á hóteli hans þar nærri. Manninum hafði tekist að koma miklum fjölda skotvopna upp á herbergi og hafði breytt mörgum þeirra svo þær virkuðu eins og vélbyssur.

Tilefni árásarinnar liggur enn ekki fyrir. Rannsakendur fundu ekkert sem sagði til um af hverju maðurinn gerði árásina.

Fréttin hefur verður uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×