Erlent

Linnu­lausar loft­á­rásir og herinn alls staðar á Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hlúð að særðum á sjúkrahúsinu í Deir al Balah.
Hlúð að særðum á sjúkrahúsinu í Deir al Balah. AP/Hatem Moussa

Ísraelsher hefur staðið í linnulausum loftárásum á Gasa frá því að hlé á átökum rann út fyrir um það bil þremur dögum. Herinn greindi frá því í nótt að aðgerðir á jörðu niðri stæðu nú yfir á svæðinu öllu.

Daniel Hagari, talsmaður hersins, sagði aðgerðirnar miða að því að ná til allra miðstöðva Hamas á Gasa; hermenn væru að elta uppi hryðjuverkamenn og drepa þá.

Yfirvöld á Gasa, sem stjórnað er af Hamas, segja um 700 Palestínumenn hafa látist í árásum Ísraels á síðasta sólahring. 

Jabalia-flóttamannabúðirnar eru sagðar hafa verið meðal skotmarka Ísraelshers og þá hafa fregnir borist af miklum spreningum í Khan Younis, borg í suðurhluta Gasa. Herinn hefur hvatt fólk til að yfirgefa borgina og halda suður til Rafah eða vestur á bóginn.

James Elder, talsmaður Unicef sem nú er í Khan Younis, segist raunar ekki hafa sofið í nótt sökum sprenginga. Þær hafi staðið yfir í alla nótt. Samkvæmt Guardian kom einnig til átaka milli hersveita Ísraels og Hamas-liða í borginni í nótt.

Heilbrigðisyfirvöld á Gasa segja 15.523 hafa látist í árásum Ísraelsmanna, þar af séu 70 prósent konur og börn. Seint í gær sögðu þau 316 hafa látist á síðustu klukkustundum og 664 særst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×