Frá þessu greinir Höskuldur, sem er maðurinn á bak við einyrkjafyrirtækið Gamli Bakstur, í færslu á samfélagsmiðlum en það hefur tekið stóran hluta af hans tíma undanfarnar vikur að vera þátttakandi með Breiðabliki í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.
„Undanfarin þrenn jól hefur Gamli Bakstur svarað kalli ykkar eftir sanngildu íslensku laufabrauði með framleiðslu þess undir heitinu Hátíðarlaufabrauð. Um leið og Gamli Bakstur þakkar hjartnæmar móttökur ykkar á þessu framtaki vill hann hvetja ykkur, nú fyrir þessi jól, að setjast niður með fjölskyldu og vinum og gera ykkar eigin laufabrauð, samkvæmt þjóðlegri hefð.
Gamli Bakstur er einyrkjafyrirtæki og fyrir þessi jól hefur fótboltatímabil einyrkjans lengst um nokkra mánuði, sem ásamt skóla veldur því að nú gefst ekki tími til framleiðslunnar. Ég mun því sjálfur gera eins og þið, fletja út nokkrar kökur og skera í, fletta & steikja, til þess að hafa á eigin borðum um hátíðarnar.“
Vertíð Blika í Sambandsdeildinni lýkur þann 14. desember næstkomandi en um er að ræða fyrsta skiptið sem íslenskt karlalið í fótboltanum tekur þátt í riðlakeppni í Evrópu.
Hingað til hafa Blikar tapað öllum fjórum leikjum sínum en átt fína spretti inn á milli. Framundan er heimaleikur hjá liðinu þann 30. nóvember næstkomandi gegn ísraelska liðinu Maccabi Tel Aviv og svo leikur liðið gegn úkraínska liðinu Zorya Luhansk í lokaumferð riðilsins.