Erlent

Eitur­lyf aug­lýst til sölu á Facebook

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Spænskir eiturlyfjasalar hafa snúið sér að Facebook til merkaðssetningar. 
Spænskir eiturlyfjasalar hafa snúið sér að Facebook til merkaðssetningar.  Vísir/Vilhelm/Getty

Fíkniefnasalar auglýsa nú allar tegundir eiturlyfja til sölu á Facebook. Þeir kaupa auglýsingar sem fá að vera þar óáreittar. 

„Við bjóðum besta kókaínið í Barcelona, við færum þér það heim og þú greiðir við afhendingu.“ Svona hljómar ein af þeim þúsundum auglýsinga sem nú birtast notendum Facebook, já og líka Instagram, í stríðum straumum.

Seljendur ólöglegra fíkniefna hafa nánast jafngóðan aðgang að auglýsingum Facebook eins og hverjir aðrir og þeir auglýsa allt sem nöfnum tjáir að nefna; alsælu, ketamín, amfetamín, LSD, kókaín. Já og heilan helling af Viagra, því miðað við umfang auglýsinga á bláu pillunni mætti halda að stinningarvandi væri alvarlegasti vandi hálfrar heimsbyggðarinnar.

Með þessum hætti eru eiturlyfjasalarnir með opið allan sólarhringinn, sjö daga í viku. Heimsendingarþjónusta og það fylgir gjarnan ein alsælupilla með sem kaupauki með hverjum viðskiptum.

Spænska dagblaðið El Diario hefur kafað ofan í auglýsingaumhverfið á Facebook og afhjúpað auglýsingar þessara ólöglegu efna. Blaðið segir að eftir að það sendi inn fyrirspurn til Facebook um ástæður þess að svona auglýsingar fengju að birtast átölulaust, hafi liðið tveir sólarhringar áður en tiltekin kókaínauglýsing var fjarlægð. Síðan liðu þrír sólarhringar og þá birtist auglýsingin að nýju.

El Diario segir Facebook gefa sig út fyrir að fylgja mjög strangri auglýsingastefnu. Allar auglýsingar séu skoðaðar gaumgæfilega og ekki birtar fyrr en eftir 24ra klukkustunda rannsókn og úttekt á innihaldi auglýsingarinnar. Þetta stenst enga skoðun, segir El Diario og segir að þúsundir auglýsinga séu í umferð sem auglýsi ólöglegan varning, vímuefni, stinningarlyf, megrunarlyf, gagnslaus krabbameinslyf og -meðferðir og svona mætti lengi telja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×