Erlent

„Nú er tíminn fyrir stríð“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vígreifur Netanyahu hafnaði alfarið áköllum um vopnahlé.
Vígreifur Netanyahu hafnaði alfarið áköllum um vopnahlé. AP/Abir Sultan

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur hafnað áköllum eftir vopnahléi á Gasa og segir frelsun eins af gíslunum sem Hamas tóku 7. október síðastliðinn sem sönnun þess að hægt sé að uppræta Hamas og endurheimta þá sem voru teknir.

Forsætisráðherrann óskaði hernum og öryggisstofnuninni Shin Bet til hamingju í gær með að hafa tekist að frelsa hermanninn Ori Megidish. Tíðindunum var fagnað í Ísrael en á sama tíma birtu Hamas-liðar myndskeið sem sýndi þrjá gísla sem enn eru í haldi.

Netanyahu sagði sókn Ísraelsher inn á Gasa opna á þann möguleika að frelsa gísla, sem eru taldir vera um 220 talsins. Hamas muni aðeins láta þá lausa undir þrýstingi en samtökin hafa sagst myndu frelsa gíslana gegn því að um 5.000 palestínskum föngum í fangelsum í Ísrael yrði sleppt.

Hvað varðaði vopnahlé, sem fjöldi ríkja hefur nú kallað eftir, sagði Netanyahu að það þýddi aðeins uppgjöf gagnvart hryðjuverkum og villimennsku.

„Það er ekki að fara að gerast. Biblían segir að það sé tími fyrir frið og tími fyrir stríð. Nú er tíminn fyrir stríð,“ sagði forsætisráðherrann. Hann kallaði Hamas-liða „skrímsli“ og sagði Ísraelsher myndu halda áfram að elta þá uppi.

Á myndskeiðinu sem Hamas birti af gíslunum þremur ávarpa þeir meðal annars Netanyahu og segja að verið sé að refsa þeim fyrir hans pólitísku mistök. „Enginn kom, enginn heyrði í okkur,“ segir einn þeirra um daginn sem Hamas-liðar gerðu árásir á byggðir í Ísrael.

Þá kölluðu gíslarnir eftir friði en gera má ráð fyrir að orð þeirra hafi sætt ritskoðun fangara þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×