Íslenski boltinn

„Pabbi veit það alveg að ég verð betri en hann“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hinrik þykir einn efnilegasti leikmaður landsins.
Hinrik þykir einn efnilegasti leikmaður landsins. vísir/einar

Einn efnilegasti leikmaður landsins samdi í gær við Skagamenn í efstu deild karla í knattspyrnu. Hann á ekki langt að sækja knattspyrnuhæfileikana.

Hinrik Harðarson skoraði ellefu mörk fyrir Þrótt sem endaði í 8. sæti Lengjudeildarinnar í sumar. Hann var valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar. Hinrik gerði samning við ÍA út tímabilið 2026. Hann mun því leika í efstu deild á næsta ári.

„Þetta þurfti að vera eitthvað mjög spennandi þannig að ég myndi íhuga að fara frá Þrótti. Ég er ótrúlega spenntur að koma Skaganum á þann stall sem þeir eiga vera. Þetta er einn stærsti klúbburinn á Íslandi og ég er ótrúlega spenntur að búa til nýja sögu upp á Skaga,“ segir Hinrik í samtali við fréttastofu.

Framherjinn segist hafa tekið góðan fund með Jóni Þóri Haukssyni þjálfara ÍA áður en hann skrifaði undir.

„Umgjörðin og fólkið og allt sem þeir eru að hugsa um núna fyrir næsta tímabil og næstu ár var bara ótrúlega spennandi. Það var það sem náði mér, hvað væri að fara gerast upp á Skaga á næstu árum. Ég hef fulla trú á því að þessi klúbbur er á leiðinni á þann stað sem þeir eiga vera á,“ segir Hinrik sem stefnir vissulega á atvinnumennskuna en það bíður betri tíma.

Hinrik á ekki langt að sækja fótboltahæfileikana en hann er sonur Harðar Magnússonar, eins markahæsta leikmanns í sögu efstu deildar á Íslandi. En ætlar hann að verða betri en faðir sinn?

„Jú jú það er alveg klárt. Það er enginn spurning og pabbi veit það alveg að ég verð betri en hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×