Erlent

Einn leið­toga Hamas segir veik­leika varna Ísrael hafa komið á ó­vart

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lík flutt úr húsarústum í Jebaliya-flóttamannabúðunum.
Lík flutt úr húsarústum í Jebaliya-flóttamannabúðunum. AP/Ramez Mahmoud

Hamas-samtökin segjast undirbúin undir langt stríð við Ísrael og að þau muni freista þess að eiga viðræður um fangaskipti; gíslana sem teknir voru á laugardag fyrir Palestínumenn í haldi í Ísrael og erlendis.

Ali Barakeh, einn af leiðtogum samtakanna sem dvelur í útlegð í Beirút, sagði í samtali við Associated Press að það hefði komið Hamas-liðum á óvart hversu langt þeir náðu inn í Ísrael. Markmiðið hefði verið að sækja eitthvað fram og taka gísla en her Ísraelsmanna hefði reynst „pappírstígur“.

Eldflaugabirgðir Hamas myndu endast lengi.

Loftárásir Ísraels á Gaza eru sagðar hafa eyðilagt um það bil 790 íbúðabyggingar og valdið skemmdum á 5.330 til viðbótar. Skemmdir á innviðum hafa valdið því að um 400.000 eru án hreins vatns.

Ísraelsmenn segjast hafa náð stjórn á landamörkunum að Gaza og að engar „innrásir“ hafi átt sér stað frá því í gær. Unnið er  að því að koma fyrir jarðsprengjum þar sem farið var í gegnum öryggisgirðingar.

Herinn gerði árás á yfir 200 skotmörk í nótt, í Rimal og Khan Yunis. Þá hefur verið greint frá því að hundruð hermanna sem voru við störf erlendis hafi verið sóttir til að taka þátt í átökunum heima við.

Áætlað er að gíslar í haldi Hamas séu á bilinu 100 til 150 talsins. Þeirra á meðal er einhver fjöldi erlendra ríkisborgara. Ástralir segja að minnsta kosti þrjá ástralska ríkisborgara hafa verið tekna.

Yfir 900 Ísraelsmenn  hafa látist frá því að Hama lét til skarar skríða á laugardag og yfir 680 Palestínumenn eru taldir látnir eftir hefndaraðgerðir Ísraelsmanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×