Íslenski boltinn

Finnarnir farnir frá FH

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dani Hatakka í leik með FH.
Dani Hatakka í leik með FH. Vísir/Diego

Eetu Mömmö og Dani Hatakka munu ekki spila með FH í Bestu deild karla í knattspyrnu sumarið 2024. Þeir koma báðir frá Finnlandi.

Þetta staðfesti Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála, hjá FH í stuttu spjalli við Fótbolti.net fyrr í dag. Þar kom fram að báðir Finnarnir væru farnir frá félaginu og myndu ekki leika með því á næstu leiktíð.

Mömmö er 21 árs gamall vængmaður sem á að baki 12 leiki fyrir U-21 árs landslið Finna. Hann kom á láni frá ítalska liðinu Lecce en fann sig aldrei í Hafnafirði. Hann kom við sögu í alls 12 leikjum, skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu.

Dani Hatakka er 29 ára gamall varnarmaður sem gekk í raðir FH eftir gott tímabil með Keflavík á síðustu leiktíð. Hann samdi til eins árs og ákvað FH að semja ekki við hann á nýjan leik. Hann lék 21 leik fyrir FH í deild og bikar.

Þá staðfesti Davíð Þór að Steven Lennon færi farinn frá félaginu en hann var á láni hjá Þrótti í Lengjudeildinni á síðari hluta tímabilsins.

FH endaði í 5. sæti með 40 stig, aðeins stigi á eftir Breiðabliki sem endaði í 4. sæti og komst þar með í Evrópukeppni á næstu leiktíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×