Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Fram 5-1 | Fylkir bjargaði sér frá falli með stórsigri

Andri Már Eggertsson skrifar
Heimamenn fagna marki
Heimamenn fagna marki Vísir/Anton Brink

Fylkir rúllaði yfir Fram og bjargaði sér frá falli. Heimamenn settu tóninn strax í upphafi leiks og skoruðu þrjú. Fylkir bætti við tveimur mörkum í síðari hálfleik og Fylkir og Fram verða í Bestu-deildinni á næsta tímabili. 

Það var sannkölluð bæjarhátíð í Árbænum þegar að Fylkir fékk Fram í heimsókn í síðustu umferð Bestu-deildarinnar. Bæði lið gátu fallið fyrir leikinn en heimamenn voru í meiri lífshættu og því var góður stuðningur kærkominn.

Aron Snær Ingason fékk dauðafæri á 12. mínútu þar sem hann náði að komast einn í gegn en var í ójafnvægi og skotið framhjá.

Arnór Breki Ásþórsson að taka aukaspyrnuVísir/Anton Brink

Arnór Breki Ásþórsson braut ísinn á 26. mínútu. Arnór Gauti Jónsson tók langt innkast sem endaði með því að boltinn datt fyrir Arnór Breka sem tók þrumuskot í fyrsta sem endaði í netinu. Það ætlaði allt um koll að keyra í stúkunni sem fagnaði marki Arnórs vel og innilega.

Ellefu mínútum síðar kom Pétur Bjarnason heimamönnum í 2-0. Ragnar Bragi Sveinsson fékk boltann við teiginn og öll vörn Fram sogaðist að honum og Ragnar gerði vel í að renna boltanum á Pétur sem gat ekki annað en skorað.

Skömmu síðar minnkaði Fram muninn með frábærri skyndisókn þar sem Fred gerði vel í að þræða Aron Snæ Ingason í gegn sem þrumaði boltanum í þaknetið og skoraði.

Nikulás Val skoraði ótrúlegt mark Vísir/Anton Brink

Í uppbótartíma skoraði Nikulás Val Gunnarsson þriðja mark Fylkis. Það var mikill darraðardans þar sem Delphin bjargaði á línu en þrátt fyrir að vera liggjandi náði Nikulás Val að sparka í boltann og koma honum inn fyrir línuna.

Staðan í hálfleik var 3-1.

Þegar að níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik bætti Pétur Bjarnason við fjórða marki Fylkis. Benedikt Daríus átti góðan sprett í átt að marki Fram og renndi síðan boltanum inn fyrir vörn gestanna og þar var Pétur fyrstur á boltann og vippaði snyrtilega yfir Ólaf Íshólm Ólafsson, markmann Fram.

Barátta í leik dagsinsVísir/Anton Brink

Á 90. mínútu skoraði Benedikt Daríus fimmta mark Fylkis. Birkir Eyþórsson átti sendingu á Benedikt sem lagði boltann fyrir sig og skoraði með vinstri.

Fylkir vann að lokum 5-1 sigur og bæði lið munu spila í Bestu-deildinni á næsta tímabili.

Fylkismenn skoruðu þrjú í fyrri hálfleikVísir/Anton Brink

Af hverju vann Fylkir?

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, talaði mikið um það að þetta væri í þeirra höndum og þeir ætluðu bara að fara og vinna. Eftir höfðinu dansa limirnir og Fylkismenn spiluðu frábærlega strax í fyrri hálfleik sem skilaði þremur mörkum.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnór Breki Ásþórsson var frábær í dag. Arnór Breki lét til sín taka í vinstri bakverðinum og skoraði fyrsta mark Fylkis sem létti á ansi mikilli pressu hjá heimamönnum.

Pétur Bjarnason var frábær í góðum sigri heimamanna. Pétur skoraði tvö góð mörk og það síðara var ansi huggulegt þar sem hann vippaði yfir Ólaf Íshólm.

Hvað gekk illa?

Spilamennska Fram var hreinasta hörmung. Gestirnir höfðu engan áhuga á að leggja sig fram og varnarleikur liðsins var afar misheppnaður.

Hvað gerist næst?

Tímabilinu er lokið og bæði lið munu spila í Bestu-deildinni á næsta ári.

Ragnar: Það er hugur í mér að halda áfram með liðið

Ragnar Sigurðsson, þjálfari Fram, á hliðarlínunniVísir/Anton Brink

Ragnar Sigurðsson, þjálfari Fram, var nánast orðlaus eftir 5-1 skell gegn Fylki.

„Maður þakkar bara fyrir að þetta hafi ekki endað stærra en 5-1,“ sagði Ragnar Sigurðsson eftir leik og hélt áfram.

„Við brotnuðum gjörsamlega. Ég veit ekki hvort þetta var hræðsla eða stress og ég er í raun orðlaus eftir leik.“

Ragnar var farinn að skoða stöðuna í leik ÍBV og Keflavíkur og var létt þegar að það kom í ljós að Fram væri ekki á leiðinni niður.

„Í stöðunni 4-1 fór ég að kíkja á símann og þá hafði ÍBV jafnað sem var smá stress en markamunurinn var enn þá mikill. Þetta var ekki góður dagur.“

Aðspurður hvort hann myndi þjálfa Fram á næsta tímabili sagði Ragnar að það yrði að koma í ljós.

„Ég veit það ekki og það verður að koma í ljós. Ég er jákvæður fyrir því sjálfur að halda áfram,“ sagði Ragnar Sigurðsson að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira