Erlent

Þvinga fanga til að flytja skotfæri gegnum jarðsprengjusvæði

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir stríðsfangar lausir eftir fangaskipti.
Úkraínskir stríðsfangar lausir eftir fangaskipti. Getty/Úkraínski herinn

Rannsakendur Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna segjast hafa staðfest að sex úkraínskir stríðsfangar hafi verið teknir af lífi af föngurum sínum. Stofnunin hefur einnig staðfest tvær grimmilegar aftökur úkraínskra manna sem tekin voru upp á myndbönd sem birt voru á netinu.

Þá hafa úkraínskir stríðsfangar verið þvingaðir til að flytja skotfæri og særða rússneska hermenn í gengum jarðsprengjusvæði og hefur þeim verið misþyrmt í haldi Rússa.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Mannréttindastofnuninni (OHCHR) sem birt var í vikunni. Þar segir að engin dæmi um að Úkraínumenn hafi tekið rússneska stríðsfanga af lífi hafi fundist.

Staðfestu aftökur sem teknar voru upp

Í skýrslu OHCHR segir einnig að staðfest sé að í mars á þessu ári hafi rússneskir hermenn pyntað og tekið tvo úkraínska hermenn af lífi. Rússneskir hermenn birtu myndbönd af báðum aftökunum.

Í fyrra tilvikinu sýndi myndband úkraínskan hermann standa í grunnum skurði og reykja sígarettu. Maðurinn með myndavélina virðist vera að bakka frá honum þegar úkraínski hermaðurinn segir: „Slava Ukraini“ eða „Lifi Úkraína“.

Við það var hann skotinn margsinnis af nokkrum rússneskum hermönnum og sagði einn þeirra eftir á: „Drepstu hundur“.

Í seinna tilvikinu birtu rússneskir hermenn myndband af því þegar höfuðið var skorið af lifandi úkraínskum hermanni. Umrætt myndband sýnir hvernig rússneskur hermaður hélt öskrandi úkraínskum hermanni niðri og skar af honum höfuðið á meðan annar stóð til hliðar, hvatti böðulinn áfram og tók ódæðið upp.

Sjá einnig: Segir aftökumyndband sýna hið raunverulega Rússland

Sumarið 2022 birtu Rússneskir hermenn einnig myndir af höfði og höndum úkraínsks hermanns á stjökum.

Það var um svipað leyti sem myndband af rússneskum hermönnum skera undan úkraínskum stríðsfanga með dúkahníf var í dreifingu. Myndbandið sýndi þrjá rússneska hermenn halda úkraínskum manni niðri, skera hann með dúkaníf og skjóta hann svo í höfuðið.

Þá héldu Rússar því fram að myndbandið hefði verið sviðsett til að koma óorði á rússneska hermenn.

Rannsakendur Bellingcat gátu þó borið kennsl á manninn sem misþyrmdi og myrti úkraínska hermanninn á myndbandinu. Sá tilheyrði téténskri hersveit í rússneska hernum en frekari upplýsingar um hvernig hann var fundinn má finna á vef samtakanna.

Sjá einnig: Stjaksettu höfuð úkraínsks hermanns

Þvinga fanga til að flytja skotfæri gegnum jarðsprengjusvæði

Í skýrslu OHCHR segir að í september í fyrra hafi rússneskir hermenn skotið úkraínskan stríðsfanga sem var særður á fæti eftir að hafa stigið á jarðsprengju. Hann hefði verið þvingaður til að flytja skotfæri til rússneskra hermanna í gegnum jarðsprengjusvæði.

Annar úkraínskur stríðsfangi var skotinn til bana fyrir að neita að flytja skotfæri. Mennirnir voru í hópi úkraínskra hermanna sem voru handsamaðir nokkrum vikum áður í Dónetskhéraði en þeir voru þvingaðir til að flytja skotfæri og særða rússneska hermenn um jarðsprengjusvæði í þrjá mánuði.

Það að þvinga stríðsfanga til að framkvæma störf sem þessi er stríðsglæpur. Aftökur stríðsfanga eru það einnig.

Pyntaðir og beittir kynferðislegu ofbeldi

Rannsakendur OHCHR ræddu við 56 úkraínska hermenn sem höfðu verið í haldi Rússa en var sleppt í skiptum fyrir rússneska stríðsfanga. Þeir ræddu einnig við 26 rússneska stríðsfanga í haldi Úkraínumanna.

Flestir Úkraínumennirnir, eða 51 af 56, sögðust hafa verið pyntaðir, barðir, ógnað eða beittir kynferðislegu ofbeldi. Í skýrslunni segir að aðstæður úkraínska stríðsfanga í höndum Rússa séu verulega slæmar.

Rússar hafa ekki veitt rannsakendum, eða öðrum aðilum, aðgang að úkraínskum stríðsföngum á yfirráðasvæði þeirra.

Rússneskir stríðsfangar í haldi í vesturhluta Úkraínu.Getty/Paula Bronstein

Tólf af 23 rússneskum stríðsföngum sögðust hafa verið pyntaðir eða beittir ofbeldi við yfirheyrslur, áður en þeir voru fluttir í formlegar fangabúðir. Þá gagnrýna rannsakendur OHCHR yfirvöld í Úkraínu fyrir að skrá ekki alla rússneska stríðsfanga og halda einhverjum í óformlegum fangabúðum.

Tekið er fram í skýrslunni að yfirvöld hafi brugðist við fyrri gagnrýni og reynt að bæta aðstæður rússneskra stríðsfanga. Til að mynda hafi matarskammtar rússneskra stríðsfanga verið auknir og hætt hafi verið að láta fanga stundum syngja fyrir máltíðir.

Í skýrslunni segir að hundruð óbreyttra úkraínskra borgara séu í haldi Rússa. Þetta fólk hafi verið pyntað og beitt margskonar ofbeldi.

Engin rússnesk rannsókn á dauða fanga

Rannsakendur OHCHR héldu áfram að rannsaka dauða að minnsta kosti 51 fanga í Olenivka í Dónetsk í fyrra. Enn er það mat rannsakenda að Rússar hafi sagt ósatt um að fangarnir hafi farist í HIMARS-árás Úkraínumanna og myndefni frá vettvangi sýni að líklegt sé að umræddum sprengjum hafi verið skotið frá austri, eða frá yfirráðasvæði Rússa.

Úkraínumenn hafa haldið því fram að Rússar hafi myrt fangana til að hylma yfir slæma meðferð á þeim.

Sjá einnig: Stríðsfangarnir í Olenivka ekki felldir í HIMARS-árás

Í skýrslu OHCHR segir að ekkert bendi til þess að Rússar hafi framkvæmt rannsókn á árásinni. Þá var rannsakendum Sameinuðu þjóðanna meinaður aðgangur að svæðinu. Leikarinn Steven Seagal fékk þó aðgang að fangabúðunum og föngunum sem voru í haldi þar.

Var það vegna heimildamyndar sem hann átti að vera að vinna við og ætlað var að varpa ljósi á sannleikann varðandi innrás Rússa í Úkraínu.

Segja börn beitt ofbeldi

Dómarar Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) gáfu í mars út handtökuskipun á hendur Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og Maríu Alekseyevna Lvova-Belova, nokkurskonar umboðskonu barna í Rússlandi. Var það ert vegna fjölda úkraínska barna sem rænt hefur verið til Rússlands.

Sjá einnig: Gefa út handtökuskipun á hendur Pútín

Rannsakendur OHCHR segja að börn af yfirráðasvæði Rússa í Karkív og Kherson hafi verið flutt til sumarbúða á Krímskaga og í Rússlandi í fyrra. Það á að hafa verið gert með samþykki foreldra þeirra eða umráðamanna en börnin voru ekki send heim eins og átti að gera. Sum þeirra eru enn í Rússlandi en foreldrar sem hafa getað ferðast til Rússlands hafa þó getað náð í börn sín.

Sum barnanna sem voru sótt, segjast hafa verið beitt ofbeldi eða að þau hafi orðið vitni af ofbeldi. Börnin munu hafa verið barin fyrir að lýsa yfir stuðningi við Úkraínu eða fyrir að neita syngja rússneska þjóðsönginn eða neita að hylla rússneska fánann.

Börnum var einnig hótað því að þau yrðu flutt á munaðarleysingjahæli í Rússlandi eða ættleidd til rússneskra fjölskyldna.

Rússar hafa ekki reynt að fela þessi mannrán heldur halda þeir því þess í stað fram að um björgunarstarf sé að ræða. Úkraínsk börn hafa verið ættleidd til rússneskra foreldra, jafnvel þó þau séu ekki munaðarlaus.

Hvort sem börn eru munaðarlaus eða ekki, þá er það að ala börn upp í annarri menningu mögulegt ummerki þjóðernishreinsunar. Þess að verið sé að reyna að þurrka út menningu og einkenni óvinaþjóðar. Pútín hefur opinberlega lýst því yfir að hann styðji þessar ættleiðingar.


Tengdar fréttir

Brestir að myndast í sam­stöðunni með Úkraínu

Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins hafa safnast saman í Granada á Spáni þar sem til stendur að ræða meðal annars stækkun sambandins, flóttamannastrauminn og áframhaldandi stuðning við Úkraínu.

Segja 49 hafa fallið í árás á matvöruverslun

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir 49 manns hafa fallið í árás Rússa á matvöruverslun og kaffihús í þorpinu Hroza í Karkívhéraði. Sex ára drengur er meðal hinna látnu en minnst sex aðrir særðust í árásinni.

Sundr­að­ir Rep­úbl­ik­an­ar gefa sér viku

Átta Repúblikanar, af 220 í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, veltu Kevin McCarthy, fyrrverandi forseta fulltrúadeildarinnar, úr sessi í gærkvöldi. Þetta eru margir af sömu þingmönnunum og komu lengi í veg fyrir að hann yrði forseti í upphafi kjörtímabilsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×