Íslenski boltinn

Arnar um samskiptin við Óskar Hrafn eftir leik: „Ég fílaði þetta ekki“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson og Óskar Hrafn Þorvaldsson skiptast á orðum.
Arnar Gunnlaugsson og Óskar Hrafn Þorvaldsson skiptast á orðum. vísir/hulda margrét

Eftir leik Breiðabliks og Víkings í Bestu deild karla í gær lentu þjálfarar liðanna, Óskar Hrafn Þorvaldsson og Arnar Gunnlaugsson, í orðaskaki. Arnar ræddi samskipti og ríginn milli þeirra í Stúkunni.

Breiðablik vann nýkrýnda Íslandsmeistara Víkings, 3-1, í lokaleik 24. umferðar Bestu deildarinnar í gær. 

Grunnt er á því góða milli þessara liða og eftir leikinn skiptust þeir Óskar Hrafn og Arnar á einhverjum orðum.

Arnar mætti í Stúkuna eftir leikinn á Kópavogsvelli þar sem hann var spurður út í samskiptin við Óskar Hrafn og ríginn milli þeirra og Víkings og Breiðabliks.

„Þetta eru eins og börnin manns, þessi lið. Það er svo mannlegt eðli að svara fyrir sig, eins barnalega og það hljómar þarf maður stundum að bíta í hnúann til að svara ekki öllu alltaf á þessum tímum samfélagsmiðla,“ sagði Arnar.

„Í þessu tilfelli, það eru ákveðnar reglur eftir leiki og það er að takast í hendur almennilega og ekki svo byrja að snúa sér við og byrja að skjóta á þjálfarann, hvað þá þjálfarann sem er nýbúinn að tapa leik. Það eru reglur. Það voru einhver orð látin falla þarna. Ég er svona 99 prósent með skapið hennar mömmu og er mjög rólegur einstaklingur en pabbi poppar stundum upp, þetta eina prósent, og hann er snargeðveikur í skapinu. Ég fílaði þetta ekki og ég fíla ekki þegar liðið mitt er hunsað eftir leiki eins og það sem gerðist.“

Klippa: Stúkan - Arnar um ríg Víkings og Breiðabliks

Arnari finnst skotin aðallega koma úr annarri áttinni.

„Mér finnst þetta ekkert rosalega mikið koma frá mér. En mér finnst ég alltaf þurfa að svara þegar koma einhver ummæli,“ sagði Arnar.

„Þetta eru skot og ég get alveg svarað miklu verr fyrir þetta en ég fer ekki þá leið. Ég trúi því og treysti að hinn almenni fótboltaáhugamaður veit bara alltof mikið um þessa íþrótt og ég þarf ekkert að svara fyrir þetta. En mikið andskoti er þetta gaman samt.“

Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Höskuldur: Mikilvægur sigur fyrir Evrópubaráttuna

„Mikilvægur sigur fyrir Evrópubaráttuna okkar og bara flott frammistaða“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, eftir 3-1 sigur gegn Víkingi. Höskuldur skoraði annað mark leiksins og átti góðan leik á miðjunni hjá Blikum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×