Erlent

Segj­ast hafa fellt yf­ir­mann Svart­a­hafs­flot­a Rúss­a

Samúel Karl Ólason skrifar
Að minnsta kosti tvær stýriflaugar hæfðu höfuðstöðvar Svartahafsflota Rússa á föstudaginn.
Að minnsta kosti tvær stýriflaugar hæfðu höfuðstöðvar Svartahafsflota Rússa á föstudaginn. AP/Planet Labs PBC

Yfirmenn sérsveita Úkraínuhers segja stjórnanda Svartahafsflota Rússa hafa fallið í stýriflaugaárás á höfuðstöðvar flotans í Sevastaopol á Krímskaga á föstudaginn. Þar að auki hafi 34 aðrir yfirmenn í rússneska hernum fallið og rúmlega hundrað hafi særst.

Auk þess segja þeir að byggingin sé ónýt en myndefni sýnir að hún sé hrunin.

Sjá einnig: Hæfð­u höf­uð­stöðv­ar Svart­a­hafs­flot­a Rúss­a

Í yfirlýsingu frá úkraínska hernum er því einnig haldið fram að þegar árás var gerð á slippinn í Sevastopol í síðustu vikur, þar sem rússnesku herskipi og kafbáti var grandað, hafi 62 úr áhöfn herskipsins fallið. Þeir hafi verið um borð þar sem setja átti skipið Minsk á flot morguninn eftir.

Sjá einnig: Skemmdu herskip og kafbát með stýriflaugum

Að minnsta kosti tvær Storm Shadow stýriflaugar hæfðu höfuðstöðvar flotans í Sevasopol á föstudaginn. Sömu stýriflaugar voru einnig notaðar til að granda Minsk og kafbátnum en árásum Úkraínumanna á Krímskaga, sem Rússar innlimuðu ólöglega árið 2014, hefur fjölgað mjög að undanförnu.

Yfirvöld í Rússlandi hafa ekki staðfest þessar fregnir. Aðmírállinn sem leitt hefur Svartahafsflota Rússa heitir eða hét Viktor Sokolov. Frá því árásin var gerð á föstudaginn hefur hann ekki sést opinberlega.

Það eina sem yfirvöld í Rússlandi hafa sagt er að einn hermaður hafi fallið í árásinni, en því var svo breytt í að hann væri týndur.

Myndir sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum í morgun sýna stóra sprengingu og mikinn eld í Sorokyne í Lúhanskhéraði, sem stjórnað er af Rússum. Myndefninu fylgdu fregnir um að þar hefðu Úkraínumenn hæft vopnageymslu Rússa en bærinn er um 135 kílómetra frá víglínunni í Úkraínu.

Rússneskir herbloggarar segja að minnst þrjár Storm Shadow stýriflaugar hafi hæft vopnageymsluna. Þeir segja enga rússneska hermenn hafa verið á svæðinu.


Tengdar fréttir

Sjö ára börn í Rúss­landi læra her­kænsku

Sjö ára börnum er kennd herkænska í skólum í Rússlandi. Rússlandsforseti kynnti nýjan skylduáfanga í skólum fyrr á árinu þar sem farið er yfir helstu atriði sem þarf að kunna í stríði. Krakkar á unglingastigi læra að beita vopnum.

Biden lofar Selenskí nýjum eldflaugum

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti Vólódómír Selenskí, forseta Úkraínu, í dag að hann ætlaði að senda langdrægar eldflaugar til Úkraínu. Úkraínumenn hafa lengi beðið um slíkar eldflaugar sem heita Army Tactical Missile System, eða ATACMS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×