Erlent

Biden lofar Selenskí nýjum eldflaugum

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden og Vólódímír Selenskí, forsetar Bandaríkjanna og Úkraínu.
Joe Biden og Vólódímír Selenskí, forsetar Bandaríkjanna og Úkraínu. AP/Evan Vucci

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti Vólódómír Selenskí, forseta Úkraínu, í dag að hann ætlaði að senda langdrægar eldflaugar til Úkraínu. Úkraínumenn hafa lengi beðið um slíkar eldflaugar sem heita Army Tactical Missile System, eða ATACMS.

Samkvæmt heimildarmönnum NBC News í Hvíta húsinu sagðist Biden ætla að senda tiltölulega fáar slíkar eldflaugar til Úkraínu en ekki liggur fyrir hvenær það verður gert.

Úkraínumenn fengu Storm Shadow stýriflaugar frá Bretum og sambærilegar stýriflaugar sem heita SCLAP frá Frökkum fyrr á árinu. Þær geta borið um 450 kílóa sprengihleðslu eru sagðar drífa rúma 250 kílómetra.

Þær hafa Úkraínumenn notað reglulega á Krímskaga að undanförnu og að virðist með góðum árangri. Í dag hæfði að minnsta kosti ein slík stýriflaug höfuðstöðvar Svartahafsflota Rússlands í Sevastopol á Krímskaga.

Stutt er síðan Úkraínumenn gerðu sambærilega árás þar sem eldflaugar hæfðu slipp nærri höfuðstöðvunum. Þar tókst Úkraínumönnum að granda herskipi og kafbát en það var í fyrsta sinn frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar sem Rússar misstu kafbát í átökum.

ATACMS drífa allt að þrjú hundruð kílómetra en hægt er að skjóta þeim með HIMARS-vopnakerfum sem Bandaríkjamenn hafa fengið frá Bandaríkjamönnum og Bretum. Eina leiðin fyrir Úkraínumenn til að skjóta Storm Shadow er að nota orrustuþotur frá tímum Sovétríkjanna sem búið er að breyta svo þær geti borið stýriflaugarnar.

Eins og áður segir hafa Úkraínumenn lengi beðið um ATACMS frá Bandaríkjamönnum en nýverið var sagt frá því að ráðamenn þar hefðu áhyggjur af því að tiltölulega fáar slíkar eldflaugar væru til í vopnabúrum Bandaríkjamanna.

Lockheed Martin framleiðir um fimm hundruð ATACMS á ári en flestar þeirra eru þegar lofaðar öðrum bandamönnum Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Umfangsmiklar árásir á báða bóga

Úkraínumenn gerðu í gærkvöldi umfangsmikla árás á flugstöð Rússa á Krímskaga. Á sama tíma skutu Rússar fjölmörgum eld- og stýriflaugum sem ætlað var að valda skemmdum á orkuinnviðum Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×