Íslenski boltinn

Þorlákur hættur með Þór

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorlákur Árnason stýrði Þór í tvö ár.
Þorlákur Árnason stýrði Þór í tvö ár. skapti hallgrímsson

Þorlákur Árnason er hættur þjálfun karlaliðs Þórs Ak. í fótbolta eftir tveggja ára starf.

Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Þorlákur tók við Þór haustið 2021. Undir hans stjórn enduðu Þórsarar í 7. sæti Lengjudeildarinnar 2022 og 2023.

„Við í stjórn knattspyrnudeildar Þórs viljum fyrst og fremst þakka Láka kærlega fyrir sitt framlag til félagsins síðastliðin tvö ár. Ég gladdist verulega yfir ráðningu hans á sínum tíma þar sem hann hafði víða þekkingu til að miðla til félagsins okkar ásamt því að vera reynslumikill leiðtogi,“ segir Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs, í fréttinni á heimasíðu félagsins.

„Á þessum tveimur árum hefur mörgum ungum leikmönnum verið gefið tækifæri og þeir náð að þróast í að verða lykilmenn í liðinu. Það eru spennandi tímar framundan í Þorpinu og áhugavert verkefni sem bíður eftirmanns Láka að koma okkar liði í efstu deild.“

Þorlákur er gríðarlega reynslumikill þjálfari. Hann hefur þjálfað karlalið Vals og Fylkis og gerði kvennalið Stjörnunnar að Íslandsmeisturum. Þá starfaði hann hjá KSÍ og knattspyrnusambandi Hong Kong.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×