Íslenski boltinn

Kjartan Kári fluttur af Kópa­vogs­velli með sjúkra­bíl

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kjartan Kári í leik kvöldsins.
Kjartan Kári í leik kvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Kjartan Kári Halldórsson, leikmaður FH, var fluttur af Kópavogsvelli þar sem lið hans mætti Breiðabliki í Bestu deild karla eftir að hafa fengið högg aftan á höfuðið.

Eftir rúman hálftíma sendu FH-ingar langan bolta fram. Anton Ari kom út úr markinu og lenti á Kjartani Kára sem lá óvígur eftir. Sjúkraþjálfarar beggja liða komu inn á völlinn og hringt var á sjúkrabíl. Atvikið má sjá neðst í fréttinni.

Í textalýsingu Vísis sagði:

„Kjartan Kári lenti í samstuði og þarfnast aðhlynningar. Börurnar eru komnar á völlinn, þetta lítur ekki vel út. Það er verið að hringja á sjúkrabíl. Hann virðist hafa fengið högg á hálsinn og er kominn í hálskraga.“
„Á meðan beðið er eftir sjúkrabílnum eru leikmenn beggja liða farnir inn í klefa. Kjartan er kominn í góðar hendur í sjúkrabílnum og leikmenn beggja liða eru að koma aftur inn á völlinn,“ var svo bætt við áður en leikurinn hélt áfram.
„Mjög óhugnanlegt atvik. Maður er pínu sjokkeraður. Þetta lítur mjög, mjög illa út,“ 

sagði Ríkharð Óskar Guðnason en hann lýsir leiknum á Stöð 2 Sport.

Það fór svo að FH vann leikinn 2-0 og er nú í 4. sæti með 37 stig, aðeins stigi minna en Breiðablik sem situr í 3. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×