Erlent

Káfaði á fréttakonu í beinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn gekk aftan af fréttakonunni Isu Balado, truflaði hana í beinni útsendingu og káfaði á henni. Hann var svo réttilega handtekinn.
Maðurinn gekk aftan af fréttakonunni Isu Balado, truflaði hana í beinni útsendingu og káfaði á henni. Hann var svo réttilega handtekinn.

Maður káfaði á spænskri fréttakonu í beinni útsendingu í miðbæ Madrídar í dag. Isa Balado var að fjalla um rán í verslun þegar maður gekk aftan að henni, truflaði hana og snerti svo á henni rassinn.

Balado hélt stillingu sinni og reyndi að halda útsendingunni áfram. Nacho Abad, þáttastjórnandinn, virtist mjög brugðið og spurði Balado hvort maðurinn hefði snert á henni rassinn. Hún svaraði því játandi.

Hún bað manninn um að leyfa henni að vinna í friði en hann hélt áfram að trufla hana. Maðurinn strauk svo um hár Balado áður en hann gekk á brott.

Maðurinn sneri þó aftur skömmu síðar en þá var fljótt klippt á útsendinguna. Abad hafði þá varað Balado við því að maðurinn væri að koma aftur.

Áður en klippt var á útsendinguna sagði maðurinn Balado að hann hefði ekki snert á henni rassinn og krafðist þess að hún segði sannleikann.

Atvikið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Samkvæmt frétt El País er maðurinn 25 ára gamall og á hann rætur að rekja til Rúmeníu.

Samstarfsmenn Balado hringdu í lögregluna á meðan útsendingin var í gangi og var hann fljótt handtekinn. Lögreglan birti svo myndband af manninum í handjárnum í dag.

Samkvæmt El País verður maðurinn mögulega ákærður fyrir kynferðisbrot en atvikið hefur leitt til mikillar reiði á Spáni. Miðillinn segir marga hafa tjáð sig um þessa árás og en þeirra á meðal var Irene Montero, jafnréttisráðherra Spánar.

„Það sem var áður „eðlilegt“ er það ekki lengur,“ sagði hún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×