Erlent

Flóð á eftir eldum í Grikklandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Gífurlega mikil rigning hefur leitt til flóða í Grikklandi.
Gífurlega mikil rigning hefur leitt til flóða í Grikklandi. AP/Thanasis Kalliaras

Eftir langvarandi þurrka og umfangsmikla gróður- og skógarelda er rigningin nú að leika Grikki grátt. Minnst einn er látinn vegna mikilla rigninga og hefur flætt víða um vestanvert og mitt Grikkland. Þá er eins manns saknað en hann mun hafa orðið fyrir skyndiflóði.

Samkvæmt Reuters er talið að maðurinn hafi dáið þegar veggur féll á hann en atvikið hefur verið rakið til veðursins. Grískir miðlar segja flóðvatn hafa leitt til þess að veggurinn hrundi á manninn sem var að reyna að koma kúm sínum í skjól.

Rigningin hefur verið hvað mest í héraði sem kallast Pilion og í bænum Volos, þar sem fólki hefur verið skipað að halda sig heima. Víða annarsstaðar í Grikklandi hefur fólk verið beðið um að fara ekki út að óþörfu en búist er að áfram muni rigna mikið út morgundaginn.

AP fréttaveitan segir að spár geri ráð fyrir allt að 70 sentímetra rigningu í Pilion í dag og á morgun. Í bænum Karditsa er spáð allt að 60 sentímetra rigningu yfir sama tímabil.

Undanfarnar vikur hafa gróður- og skógareldar leikið Grikki grátt.AP/Thanassis Stavrakis

Eins og áður segir hafa gróður- og skógareldar leikið Grikki grátt á undanförnum vikum. Minnst tuttugu manns hafa dáið og umfangsmiklir skógar og mikið ræktunarland hefur orðið eldi að bráð.


Tengdar fréttir

Mann­skæðir vatna­vextir í úr­helli á Spáni

Að minnsta kostir tveir eru látnir í miklum vatnavöxtum á Spáni. Fólki hefur verið bjargað af húsþökum og vegir og járnbrautarlínur hafa lokast vegna úrhellisrigningarinnar sem byrjaði að falla í gær.

Vatnsvél lenti á tré og brotlenti

Vatnsflugvél sem notuð var til slökkvistarfs á Evía í Grikklandi brotlenti í morgun. Verið var að nota flugvélina til að varpa vatni á gróðurelda þegar annar vængur hennar virðist hafa lent á tré. Við það snerist flugvélin og brotlenti en slysið náðist á myndband.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×