Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Þróttur 0-4 | Titilvonir Blika endanlega úr sögunni eftir afhroð á heimavelli

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þróttur vann 4-0 sigur.
Þróttur vann 4-0 sigur. Vísir/Hulda Margrét

Þróttur heimsótti Breiðablik í Kópavoginn og lagði þær af velli 0-4. Þetta var fyrsti leikur í úrslitakeppni Bestu deildar kvenna og sömuleiðis fyrsti leikur Gunnleifs Gunnleifssonar við stjórnvölinn eftir að Ásmundur Arnarsson lét af störfum sem aðalþjálfari Breiðabliks.

Breiðablik voru við stjórnvölinn lengst framan af í fyrri hálfleik. Voru mun beinskeyttari og hættulegri fram á við en Þróttur. Færðu boltann vel milli kanta og fundu framherjanna inni á vítateig en fóru illa með færin sín og tókst ekki að koma boltanum yfir línuna.

Rétt fyrir hálfleikslok tók Þróttur svo forystuna þvert gegn gangi leiksins. Markið skoraði Katherine Cousins með skalla eftir fyrirgjöf Maríu Evu Brynjólfsdóttur.

Blikastelpur fóru því heldur brotnar inn í búningsherbergin og komu illa út í seinni hálfleikinn. Strax á 48. mínútu skoruðu gestirnir sitt annað mark, í þetta skiptið var það Katla Tryggvadóttir sem þrumaði boltanum í netið eftir stoðsendingu Tönyu Boychuk.

Tanya skoraði svo þriðja mark Þróttar skömmu síðar. Markið kom eftir skoppandi sendingu Maríu Evu, Tanya tekur boltann á lofti og þrumar honum í netið.

Katherine Cousins bætti svo við markareiking sinn aðeins fimm mínútum síðar. Misheppnuð hreinsun út úr vítateig hjá Blikum, boltinn dettur fyrir Katherine sem skýtur í varnarmann og þaðan í netið.

Eftir þetta áhlaup voru Blikastelpur alveg bugaðar. Þróttur tók algjörlega við stjórn leiksins, óðu í færum allan seinni hálfleikinn og hefðu hæglega getað skorað meira en raunin varð en mega þakka markverði sínum fyrir að tapið varð ekki stærra.

Af hverju vann Þróttur?

Þessi leikur var góð lexía í mikilvægi þolinmæðar. Þróttur átti á brattan að sækja allan fyrri hálfleikinn en héldu áfram að verjast og berjast, fengu svo færi undir lok fyrri hálfleiks sem þær nýttu vel. Komu af gríðarlegum krafti út í seinni hálfleikinn og gengu frá leiknum.

Hverjar stóðu upp úr?

Þróttaraliðið í heild sinni á mikið hrós skilið en Katherine Cousins bar yfirburði inni á vellinum í dag, skoraði tvö mörk og var mikilvægur uppspilspunktur fyrir Þróttarana.

Hvað gekk illa?

Sjálfstraust Breiðabliks virðist algjörlega hrunið, skorti kjark fyrir framan markið og þorðu ekki að taka sénsana. Eftir að hafa verið betra liðið allan fyrri hálfleikinn fengu þær óvænt mark á sig og brotnuðu alveg niður.

Hvað gerist næst?

Þróttur heimsækir FH, þriðjudaginn 12. september. Breiðablik gerir sér ferð norður á Akureyri og mætir Þór/KA, miðvikudaginn 13. september.

Við ætlum ekkert að fara að vorkenna okkur

Gunnleifur í leik með Blikum á sínum tíma.vísir/andri

Gunnleifur Gunnleifsson, fyrrum landsliðsmarkvörður, stýrði sínum fyrsta leik sem aðalþjálfari Breiðabliks eftir að Ásmundur Arnarsson lét af störfum fyrir skömmu. Frumraun hans gekk ekki að óskum en leiknum leik með 4-0 tapi gegn Þrótti.

„Þróttur spilaði vel, mér fannst við spila vel fyrsta hálftímann. Fengum fullt af færum, vorum þéttar og margt gott við frammistöðuna og fyrri hálfleikurinn ásættanlegur að mörgu leyti. Svo skora þær, fara inn í hálfleik með 1-0, skora svo snemma 2-0 og þá fann maður hausinn aðeins fara niður á við.“ sagði Gunnlaugur strax að leik loknum.

Það hefur gengið á ýmsu síðustu vikur hjá Breiðablik, fyrir um mánuði síðan var liðið í toppsæti deildarinnar á leið sinni í úrslitaleik Mjólkurbikarsins. Sá leikur tapaðist og liðinu hefur gengið illa að ná sér á strik eftir það.

„Það vantar upp á sjálfstraust, mikið búið að ganga á og þá er þetta svolítið erfitt, mótlæti er stundum erfitt og einhvern veginn verður allt þyngra en við ætlum ekkert að fara að vorkenna okkur. Töpuðum bara leik á móti fínu liði.“

Gunnlaugur segir mikilvægt að halda höfðinu hátt á lofti þrátt fyrir áföll og erfitt gengi síðustu misseri.

„Það er bara þannig í fótbolta... eins og að tapa bikarúrslitaleiknum, það var áfall fyrir liðið og við höfum ekki náð okkur upp eftir það og þetta er búið að vera brekka. Þá þarf að grafa djúpt, finna einhverja ástríðu og tilgang fyrir því að vera í þessu.“

Þó þetta hafi ekki verið nein draumabyrjun í starfi hefur Gunnlaugur fulla trú á liðinu og vonast til að klára mótið með sæmd.

„Ég er hvergi bonkinn, eins og ég sagði erum við ekkert að fara að vorkenna okkur. Við erum að keppast við að halda spennu í deildinni, Valur eru með mikla forystu og við ráðum ekkert við það. Eina sem við gerum er að hugsa um okkur, hugsa um liðið og hjálpa stelpunum að enda þetta eins vel og hægt er.“

Það mikilvægasta var að við fengum sjálfstraust og trú á því sem við vorum að gera

Nik á hliðarlínunni.Vísir/Hulda Margrét

„Við komumst aldrei af stað í fyrri hálfleiknum, Breiðablik voru að valda okkur alls kyns vandræðum en Idun varði vel og stelpurnar voru að fleygja sér fyrir skotin þannig að ég verð að gefa þeim hrós fyrir sinn varnarleik, það hélt okkur inni í leiknum. Það eina góða sem við gerðum fram á við var einföld fyrirgjöf og skallinn frá Katherine. Svo komum við út í seinni hálfleik, skorum snemma og eftir það stjórnum við leiknum algjörlega.“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, strax að leik loknum.

Hann hrósar liði sínu fyrir að hafa haldið út erfiða kafla í fyrri hálfleik þar sem allt leit út fyrir að Blikar tækju forystuna. Þjálfarinn gerði svo taktískar breytingar í hálfleik en segir að sjálfstraustið sem liðið sýndi inni á vellinum hafi skilað sigrinum.

„Við færðum Katherine og Kötlu, Katy fær aðeins lengra út á kant og það gerði okkur kleift að halda boltanum betur. En það mikilvægasta var að við fengum sjálfstraust og trú á því sem við vorum að gera. Í fyrri hálfleik vorum við stressuð, náðum ekki að tengja sendingar saman en vörðumst vissuelga vel.“

Íslandsmeistaratitillinn er ekki möguleiki fyrir Þrótt, en þær eiga enn möguleika á því að ná 2. sætinu af Blikum og tryggja sér þannig þátttökurétt í Evrópukeppni á næsta ári. Nik segir mikilvægt að fara ekki fram úr sér.

„Það er ekki í okkar höndum, þó við vinnum alla okkar leiki gæti Breiðablik gert það líka og þær eru með betri markatölu. Við tókum bara einn leik í einu og skoðum svo stöðutöfluna þegar úrslitakeppninni lýkur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira