Rússar etja nú kappi við Indverja um að verða fyrstir til þess að lenda geimfari á suðurpól tunglsins. Svæðið þykir sérstaklega áhugavert þar sem talið er að vatnís gæti verið að finna í botni gíga í varanlegu myrkri. Vinnanlegt vatn væri dýrmæt auðlind fyrir framtíðarkönnun og landnám tunglsins, meðal annars sem hráefni í eldflaugaeldsneyti.
Luna-25 er fyrsta rússneska geimfarið sem kemst á braut um tunglið frá því að Luna-24 gerði það árið 1976. Anatolíj Zak, höfundur vefsíðu sem fylgist með geimáætlun Rússa, segir Reuters-fréttastofunni að áfanginn sé mikilvægur.
„Sumir kallað þetta annað tunglkapphlaupið þannig að það er mjög mikilvægt fyrir Rússland að halda áætluninni áfram. Luna-25 er ekki bara einn leiðangur, hann er hluti af mun stærri áætlun sem nær tíu ár inn í framtíðina,“ segir Zak.
Tunglfarinu er ætlað að safna sýnum af tunglgrjóti og ryki til þess að vísindamenn geti áttað sig betur á aðstæðum þar sem mannabústaðir gætu mögulega risið í framtíðinni.