Erlent

Frambjóðandi til forseta Ekvador skotinn til bana

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fernando Villavicencio með fána á framboðsfundi í skóla nokkrum mínútum áður en hann var skotinn til bana í Quito í nótt.
Fernando Villavicencio með fána á framboðsfundi í skóla nokkrum mínútum áður en hann var skotinn til bana í Quito í nótt. AP

Frambjóðandi í komandi forsetakosningum í Suður-Ameríkuríkinu Ekvador var skotinn til bana á kosningafundi í höfuðborginni Quito í gær.

Vitni segja hinn 59 ára gamla Fernando Villavicencio hafa verið skotinn þrisvar. Villavicencio hefur í kosningabaráttu sinni einblínt á spillingu og að stöðva glæpagengi. Hann hefur verið einn fárra forsetaframbjóðenda til að benda á að embættismenn í Ekvador séu tengdir við skipulögð glæpasamtök í landinu. Ekvador hefur í seinni tíð talist vera nokkuð öruggt land en glæpum hefur fjölgað nokkuð verulega síðustu ár. Upprisa fíkniefnagengja hefur verið talin helsta ástæðan og verið eitt aðalumræðuefnið í kosningabaráttunni.

Samkvæmt upplýsingum úr kosningateymi Villavicencio var hann að stíga inn í bíl þegar karlmaður birtist óvænt og skaut hann í höfuðið. Árásarmaðurinn var skotinn af öryggisvörðum og lést af sárum sínum. Níu til viðbótar slösuðust. Sex eru í haldi lögreglu vegna morðsins. Villavicencio var giftur fimm barna faðir, fyrrverandi blaðamaður sem fjallaði um spillingu á ferli sínum. Hann greindi frá því í síðustu viku að honum og kosningateymi hans hefði verið hótað af gengi sem tengdist fíkniefnaviðskiptum.

Fyrsta umferð forsetakosninganna á að fara fram þann 20. ágúst.

Frétt BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×