Enski boltinn

Chloe skaut fastar en allir karlarnir í ensku úr­vals­deildinni á síðustu leik­tíð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enska landsliðskonan Chloe Kelly lét heldur betur vaða á marki í úrslitavítinu.
Enska landsliðskonan Chloe Kelly lét heldur betur vaða á marki í úrslitavítinu. Getty/Bradley Kanaris/

Enginn karlmaður í ensku úrvalsdeildinni náði jafnmiklum krafti í skot og mark og hetja enska kvennalandsliðsins í fyrstu umferð útsláttarkeppni HM í Ástralíu og Nýja Sjálandi.

Chloe Kelly tryggði enska landsliðinu sigur í vítakeppninni á móti Nígeríu í sextán liða úrslitum HM kvenna í fótbolta.

Kelly tók lokavíti enska landsliðsins. Hún skoraði af miklu öryggi, negldi boltanum upp í bláhornið en fast skot hennar var algjörlega óverjandi fyrir frábæran markvörð nígeríska landsliðsins.

Þegar menn fóru að rýna í tölurnar kom í ljós að Kelly hafði skotið boltanum með 110,79 kílómetra hraða í þessu umrædda víti.

Fastasta skot sem varð að marki í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð var hjá Said Benrahma þegar hann skoraði fyrir West Ham United á móti Crystal Palace. Skot hans mældist þá á 107,2 kílómetra hraða.

Það er því ekkert skrýtið að Chloe Kelly taki alltaf síðasta víti enska landsliðsins í vítakeppni en þetta var ekki í fyrsta sinn sem hún tryggði liðinu mikilvægan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×