Umfjöllun og viðtöl: Valur - Þróttur 2-1 | Valskonur halda toppsætinu

Kári Mímisson skrifar
343570830_662565035717698_221599945620818449_n
vísir/vilhelm

Topplið Vals fékk Þrótt, sem er í 3. sæti Bestu deildar kvenna, í heimsókn í stórleik 14. umferðar í sannkölluðum Reykjavíkurslag. Valur fór með 2-1 sigur af hólmi og heldur því toppsætinu.

Leikurinn fór hægt af stað og skiptust liðin á að halda boltanum og stýra leiknum. Eftir um 20 mínútna leik voru það gestirnir sem virtust vera líklegri. Katie Cousins fékk gott færi sem og Katla Tryggvadóttir en inn vildi boltinn ekki.

Allt bent til þess að það yrði markalaust þegar flautað yrði til hálfleiks en á rétt áður en það gerðist skoraði Sierra Marie Lelii og kom gestunum yfir eftir frábæra fyrirgjöf frá Freyju Karín Þorvaldsdóttur. Freyja reyndi fyrst að koma boltanum inn á teig en Arna Sif komst fyrir sendinguna. Freyja náði hins vegar boltanum aftur og kom honum strax fyrir þar sem Sierra reis hæst í teignum og skallaði boltann í bláhornið, óverjandi fyrir Fanneyju Ingu í marki Vals. 1-0 í hálfleik fyrir gestina.

En heimakonur náðu að jafna eftir rúmlega tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Þar var að verki Þórdís Elva Ágústsdóttir eftir frábæra sendingu frá Ásdísi Karen Halldórsdóttur. Lise Dissing náði að senda á Ásdísi inn á teignum sem náði að taka á móti boltanum með bakið í markið og pikka honum inn fyrir á Þórdísi Elvu sem skoraði þægilega fram hjá Írisi Dögg Gunnarsdóttur.

Það var svo á 70. mínútu sem sigurmarkið kom. Það gerði Berglind Rós Ágústsdóttir eftir frábæran undirbúning frá þeim Amöndu Andradóttur og Ásdísi Karen Halldórsdóttur. Eftir frábært þríhyrningsspil frá þeim var Amanda komin í upplagt marktækifæri. Amanda ákvað að renna boltanum hins vegar á Berglindi sem setti boltann auðveldlega í netið. Glæsilegt mark og það fyrsta hjá Berglindi fyrir Val í átta ár.

Þróttarkonur reyndur allt hvað þær gátu til að jafna leikinn en náðu ekki að skapa sér nein alvöru tækifæri og 2-1 sigur Vals því niðurstaðan í þessum frábæra Reykjarvíkurslag.

Af hverju vann Valur?

Þetta var einn af þessum leikjum sem gat endað á hvorn veginn sem er. Það er meiri reynsla í liði Vals og ætli það sé ekki hægt að segja að það hafi verið það sem skóp þennan sigur í dag, eins klisjukennt og það hljómar.

Hverjar stóðu upp úr?

Arna Sif var frábær í hjarta varnarinnar hjá Val eins og svo oft áður. Þórdís Elva var svo ótrúlega seig líka á miðjunni. Ég verð líka að minnast á Amöndu Andradóttur. Það eru allir að bíða eftir því að hún springi út enda búið að tala um hana sem eina efnilegust knattspyrnukonu í Evrópu í langan tíma. Gæðin sem hún sýnir í þessu sigurmarki eru rosaleg og það verður virkilega spennandi að sjá hana springa út á næstu misserum.

Hvað gekk illa?

Þetta var frábær leikur í kvöld hjá báðum liðum. Ég hef ekkert slæmt að segja.

Hvað gerist næst?

Þróttur tekur á móti ÍBV á fimmtudaginn eftir viku í fyrsta leik Eyjakvenna eftir Þjóðhátíð. Leikurinn hefst klukkan 18:00. Valur leikur næst við Stjörnuna en tímasetning leiksins er ekki komin á hreint eins og er en samkvæmt Pétri þá á sá leikur að fara fram á miðvikudaginn.

Pétur: „Þetta var frábær leikur tveggja góðra liða“

Pétur á hliðarlínunni fyrr í sumar, það var blíða í kvöld

Pétur Pétursson, þjálfari Vals var að vonum mjög sáttur með sigur liðsins í kvöld.

„Ég er bara hrikalega ánægður með sigurinn en ég vil líka segja það að þetta var frábær leikur tveggja góðra liða. Við kláruðum þetta í dag sem betur fer. Mér fannst við frekar svona rólegar í fyrri hálfleik enn það var líka hvernig ég setti upp leikinn þannig að þetta var mér að kenna. Þróttararnir eru með gott lið og erfitt að spila á móti þeim.“

„Í seinni hálfleik þá fórum við í okkar pressu og það gekk fullkomlega upp. Mér fannst þetta sigurmark alveg geggjað. Gaman að sjá vigtina á sendingunum hjá Amöndu, hvernig spilið var og hvernig við kláruðum markið. Þetta var frábært mark.“

Málfríður Anna Eiríksdóttir var ekki sjáanleg í liði Vals í kvöld. Pétur segir að hún hafi meiðst gegn ÍBV í síðasta leik en hann reikni með henni í næsta leik gegn Stjörnunni.

„Málfríður meiddist í Vestmannaeyjum og gat ekki tekið að neinu leyti þátt í leiknum í dag. Ég vona að hún verði með í næsta leik.“

Valur mætir Stjörnunni næst. Upphaflega átti leikurinn að vera á mánudaginn en honum hefur verið frestað. Hvenær má reikna með að sá leikur fari fram?

„Mér skilst að við spilum 9. ágúst við þær.“ - Sagði Pétur að lokum

Berglind Rós: „Tilfinningin að vera mætt aftur er æðisleg“

Berglind Rós Ágústsdóttir hefur leikið erlendis síðustu ár. Hér er hún í leik með ÖrebroRasmus Ohlsson

Berglind Rós Ágústsdóttir var mætti aftur á Hlíðarenda þar sem hún lék síðast í Valstreyju árið 2015. Hvernig var tilfinningin að vera mætt aftur hingað?

„Hún var mjög góð. Þetta er mjög góður völlur og góður klúbbur. Tilfinningin að vera mætt aftur er æðisleg. Mætingin var góð í dag og margir mættir til að hvetja okkur í dag og mér fannst það mjög jákvætt. Mér finnst umgjörðin hér góð. Þetta er stór klúbbur og það er hugsað vel um okkur sem er æðislegt. Allir í þjálfarateyminu, leikmenn og í aðstandendur liðsins, það er allt uppi á tíu hér.“

Berglind skoraði sigurmarkið í kvöld eftir stoðsendingu frá Amöndu Andradóttur. Amanda var sjálf í upplögðu færi en í stað þess að skjót renndi hún boltanum á Berglindi sem skoraði auðveldlega. En átti Berglind von á því að fá boltann frá Amöndu?

„Í hreinskilni sagt þá var ég ekki alveg að búast við því en ég var tilbúin ef það skyldi gerast. Ég hélt að hún myndi skjóta en hún gaf og ég bara setti boltann í hornið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira