Innlent

Botna ekkert í dauða tíu hunda á Austurlandi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Sigurborg Daðadóttir er yfirdýralæknir Matvælastofnunar sem tók við rannsókn á dauða tíu hunda fyrr í mánuðinum.
Sigurborg Daðadóttir er yfirdýralæknir Matvælastofnunar sem tók við rannsókn á dauða tíu hunda fyrr í mánuðinum. vísir

Yfirdýralæknir MAST segir óútskýrðan dauða tíu hunda á Austurlandi einstakt mál sem stofnunin botni ekki í að svo stöddu. Málið er nú á borði lögreglu.

Þann 8. júlí síðastliðinn kom Askur Bárðdal Laufeyjarson hundaræktandi að tíu hundum sínum dauðum á bæ sínum í Engihlíð upp af Breiðdalsvík. Askur hafði skroppið á bæjarhátíð í nokkrar klukkustundir en þegar hann kom til baka lágu hundarnir tíu dauðir í hundagerðinu þar sem hann hafði skilið þá eftir.

Þetta voru sex Síberíu Husky, einn Alaska husky, þrír Border Collie og Síberíu Husky blendingar.

Matvælastofnun tók við rannsókn málsins og voru tveir hundar sendir í krufningu á tilraunastöð á Keldum.

„Það er enn þá verið að bíða eftir frekari niðurstöðum úr krufningu. Þetta fór í eiturefnagreiningu og það tekur einhverjar vikur. Þannig þetta fór ekki lengra af okkar hálfu og við vísuðum þessu til lögreglu,“ segir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir Matvælastofnunar. 

Að hennar sögn liggur ekki fyrir að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað en engir sjáanlegir áverkar voru á hundunum.

„Það er enginn grunur um sjúkdóm. Það allavega finnst ekki við krufningu og það er ekki grunur um neitt enn þá. Þetta er bara óútskýrt. Óútskýrður dauði.“

Þannig þið botnið í raun ekkert í þessu? 

„Það má alveg segja það, þetta er allavega mjög óljóst.“

Ljóst er að tjón eigandans hleypur á milljónum. Málið á sér engin fordæmi hérlendis en búast má við niðurstöðum eiturefnakrufningar innan nokkurra vikna.


Tengdar fréttir

Hunda­dauðinn kominn á borð lög­reglu

Mál tíu hunda sem fundust dauðir fyrr í mánuðinum án skýringar er komið á borð lögreglu. Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að verið sé að rannsaka hvort eitrað hafi verið fyrir þeim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×