Erlent

Herinn í Níger segist hafa tekið völdin

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Skjaskot af beinni útsendingu á ávarpi hermannanna sem segjast hafa tekið völdin í Níger.
Skjaskot af beinni útsendingu á ávarpi hermannanna sem segjast hafa tekið völdin í Níger. Getty

Hópur hermanna í Níger tilkynnti í nótt að herinn væri búin að steypa ríkisstjórn landsins af stóli og hefði hrifsað til sín völdin í vestur-afríska landinu. Einnig greind hópurinn frá því að forseti Níger, Mohamed Bazoum, væri í haldi þeirra.

Hópurinn sem kallar sig Þjóðarráð til verndar föðurlandsins tilkynnti þetta í sjónvarpsávarpi um miðnætti á íslenskum tíma. Hermennirnir sögðu öryggissveitir hafa tekið yfir stofnanir landsins og hvöttu utanaðkomandi aðila til að skipta sér ekki af.

„Þetta er afleiðing versnandi öryggisaðstæðna og slæmrar efnahags- og félagsstjórnar,“ sagði Amadou Abdramane, ofursti, í ávarpi hópsins í sjónvarpinu.

Hann sagði að búið væri að loka landamærum landsins, bæði í lofti og á landi og að útgöngubann hafi verið sett á þar til að ástandið yrði stöðugra.

Antony Blinken, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ásamt Mohamed Bazoum, forseta Níger, á fundi þeirra í Níger í mars.AP/Boureima Hama

Forsetinn í haldi hersins

Í gærmorgun bárust fréttir af því að meðlimir lífvarðarsveitar forsetans hefðu umkringt forsetahöllina og hefðu forsetann í haldi. Þá var ekki ljóst hver staða forsetans væri eða hvort aðrir hlutar hersins ættu þátt í uppreisninni.

Antony Blinken, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur kallað eftir því að Bazoum verði leystur úr haldi tafarlaust.

„Hvort þetta telst tæknilega sem valdarán eða ekki, get ég ekki sagt til um, það er hlutverk lögfræðinga. En þetta er greinilega tilraun til hrifsa til sín völd með valdi og brýtur í bága við stjórnarskránna,“ sagði Blinken á blaðamannafundi í Wellington, höfuðborg Nýja-Sjálands í nótt.

Valdaránið er það sjöunda sem á sér stað í Afríku frá árinu 2020. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×