Erlent

Vildar­vinir Pútín og Kadyrov settir yfir Danone og Balti­ka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pútín og Mikhail Kovalchuk.
Pútín og Mikhail Kovalchuk. Getty/Mikhail Svetlov

Stjórnvöld í Rússlandi settu í gær Yakub Zakriev, landbúnaðarráðherra Téténíu, yfir Danone Russia og Taimuraz Bolloev, vin Vladimir Pútín Rússlandsforseta, yfir Baltika Breweries.

Pútín undirritaði á dögunum tilskipun um að fyrirtækin tvö, dótturfélög hins franska Danone og hins danska Carlsberg, yrðu færð undir stofnun sem hefur umsjón með félögum í eigu rússneska ríkisins.

Samkvæmt Financial Times var það gert eftir að milljarðamæringarnir Yuri og Mikhail Kovalchuk föluðust eftir Baltika. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í St. Pétursborg, þar sem bræðurnir starfa. 

Bolloev, sem stjórnaði Baltika fyrir aldamót, er sagður náin Kovalchuk-bræðrum en þeir hafa löngum verið meðal nánustu bandamanna Pútín. Zakriev, 34, ára er svo aftur sagður náin samstarfsmaður Ramzan Kadyrov, leiðtoga Téténíu, sem er einnig afar hliðhollur forsetanum.

Bæði Kovalchuk-bræður og Kadyrov sæta refsiaðgerðum bandamanna vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Sérfræðingar segja eignarnám Rússa á fyrirtækjunum boðbera frekari eignaupptöku erlendra fyrirtækja í landinu og dreifingu þeirra til vina og stuðningsmanna Pútín.

Forsetinn sé þannig að slá tvær flugur með einu höggi; valda Vesturlöndum sársauka og verðlauna þá sem hafa staðið þétt við bakið á honum og sýnt honum hollustu á þessum síðustu og verstu tímum.

Alexandra Prokopenko, sérfræðingur við Carnegie Russia Eurasia Center, segir ljóst í kjölfar tíðindanna að engar erlendar eignir í Rússlandi séu öruggar.

Bæði félögin voru í söluferli þegar eignarnámið átti sér stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×