Enski boltinn

Man United íhugar að lána Greenwood til Ítalíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það virðist sem Greenwood eigi framtíð í boltanum eftir allt saman.
Það virðist sem Greenwood eigi framtíð í boltanum eftir allt saman. Laurence Griffiths/Getty Images

Það virðist sem enska knattspyrnufélagið Manchester United hafi komist að samkomulagi við Atalanta um að lána Mason Greenwood þangað út komandi tímabil. Sá hefur ekki spilað fyrir Man United síðan þann 22. janúar á síðasta ári vegna gruns um líkamlegt sem og kynferðisofbeldi.

Samkvæmt staðarmiðlinum Manchester Evening News hefur John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála hjá Man United, fundað með Atalanta en enska félagið hefur gríðarlegan áhuga á að fá danska framherjann Rasmus Höjlund í sínar raðir frá Atalanta. Svo virðist sem ítalska félagið sé viljugra að láta Danann af hendi ef það fær Greenwood á láni.

Samkvæmt frétt miðilsins vill Erik ten Hag, þjálfari Man United, ekki selja Greenwood sem stendur en samningur hans við félagið rennur út sumarið 2025. Þá getur félagið framlengt samning um ár til viðbótar.

Eins og áður sagði hefur Greenwood ekki spilað síðan í ársbyrjun 2022 þegar kærasta hans birti myndir af áverkum sem hún sagði leikmanninn hafa veitt sér. Þá birti hún hljóðbrot þar sem heyra mátti Greenwood þvinga hana til samræðis.

Hann var í kjölfarið kærður fyrir líkamsárás sem og tilraun til nauðgunar. Málið var látið niður falla eftir að lykilvitni drógu vitnisburð sinn til baka og vildu ekki bera vitni.

Greenwood er því frjáls allra ferða sinna og nýverið hefur hann sést undir handleiðslu einkaþjálfara. Hefur Juventus verið orðað við leikmanninn en nú virðist sem hann sé á leið til Atalanta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×