Um­fjöllun og við­töl: Stjarnan - Þróttur 0-2 | Gestirnir sóttu þrjú stig í Garða­bæ

Dagur Lárusson skrifar
Katla var á skotskónum.
Katla var á skotskónum. Vísir/Hulda Margrét

Þróttur Reykjavík vann góðan 2-0 útisigur á Stjörnunni í 12. umferð Bestu-deildar kvenna í knattspyrnu. Mörkin skoruðu Katla Tryggvadóttir og Sierra Marie Lelii.  Bæði lið komu til leiks með sigur í síðustu umferð í farteskinu,  Stjarnan sigraði ÍBV 2-1 í Eyjum á meðan Þróttur vann Selfoss 3-0.

Fyrri hálfleikurinn var langt frá því að vera sá fjörugasti í sumar en það voru ekki mörg færi sem litu dagsins ljós. Það var þó samt sem áður eitt mark sem kom og það var á 15.mínútu leiksins þegar Katla Tryggvadóttir fékk boltann á vinstri kantinum. Hún leitaði inn á teig og lék glæsilega á varnarmann sem endaði með því að hann féll til jarðar og því næst skaut Katla að marki og Auður í marki Stjörnunnar virtist verja boltann í netið. Staðan orðin 1-0 og þannig var staðan í hálfleik.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, gerði þrefalda skiptingu í hálfleiknum í von um að blása nýju lífi í spilamennskuna. Það virtist vera að skila sér að einhverju leyti fyrstu mínúturnar í seinni hálfleiknum en Stjarnan átti sitt besta tækifæri strax á 49.mínútu en þá átti varamaðurinn Snædís María skot í þverslánna og yfir.

Þróttur náði hins vegar tökum á leiknum um miðbik seinni hálfleiksins og færin duttu þeirra megin. Sierra Marie kom síðan af bekknum fyrir Þrótt og spilaði virkilega vel og kórónaði flotta frammistöðu sína með marki á 73.mínútu en þá fékk hún stungusendingu inn á teig og tók boltann fram hjá Auði í marki Stjörnunnar og kláraði í autt markið. Staðan orðin 2-0 og þannig voru lokatölur og Þróttara fengu því stigin þrjú.

Af hverju vann Þróttur?

Það virtist vera meiri kraftur í gestunum heldur en Stjörnunni. Það leit út í byrjun leiks eins og Stjarnan þurfti á því að fá mark á sig til þess að byrja að spila af krafti en sá kraftur dvínaði síðan alltaf. Þróttur er með spræka og fljóta leikmenn sem Stjarnan réði ekki við.

Hverjar stóðu upp úr?

Katla Tryggvadóttir var frábær í leiknum og kom Þrótti yfir með marki eftir frábær tilþrif. Annars gaf Þróttara vörnin fá færi á sér og Jelena stýrði henni eins og herforingi.

Hvað fór illa?

Mikið um lélegar sendingar og orkuleysi hjá Stjörnunni oft á tíðum.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Stjörnunnar er gegn Tindastól laugardaginn 29.júlí og næsti leikur Þróttar er gegn Þór/KA þann sama dag.

„Ánægðastur með það hvernig þær aðlöguðust hverju sem er“

Nik, þjálfari Þróttar.Vísir/Anton Brink

„Þetta var mjög góður leikur af okkar hálfu, ég er ánægður með nánast allt sem gerðum,“ byrjaði Nik Anthony, þjálfari Þróttar, að segja eftir leik.

„Við byrjuðum með uppstillingu sem gerðu okkur kleift að vinna okkur inn í leikinn, okkur finnst betra að gera það í stóru leikjunum og við gerðum það virkilega vel,“ hélt Nik áfram.

Nik talaði um að hvað hann var ánægður með að hvernig liðið sitt brást við stöðugum breytingum á uppstillingunni.

„Við breyttum um uppstillingu síðan eftir um tíu mínútur og þá náðum við inn marki eftir frábær tilþrif hjá Kötlu. En þetta er líklega það sem ég er ánægðastur með varðandi mitt lið í dag, stelpurnar aðlöguðust hverju sem er og það var ekkert vandamál fyrir þær.“

Nik talaði einnig um vörnina.

„Vörnin var einnig virkilega góð, Sóley og Jelena eru að vinna mjög vel saman og ég er svolítið svekktur að hvorug þeirra hafi ekki verið valin í landsliðið. En við fengum held ég eitt alvöru færi á okkur í leiknum, allt hitt voru langskot,“ endaði Nik á að segja.

„Mjög vond byrjun á leiknum hjá okkur“

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var mjög vond byrjun á leiknum hjá okkur, það er svona fyrsta sem fer í gegnum hugann á mér núna eftir leik,“ byrjaði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, að segja eftir leik.

„Við vorum mjög hikandi og mikið um klaufamistök, lélegar sendingar og almennt einbeitingarleysi og missum þær þannig í 1-0 og vorum of lengi að átta okkur á hlutunum,“ hélt Kristján áfram að segja.

Kristján gerði þrefalda skiptingu í hálfleik og vill meina að hann hafi séð breytingar á liðunu eftir það.

„Já við náðum tökum á leiknum þá. Fyrstu fimmtán mínúturnar í seinni hálfleiknum þá vorum við með öll völdin á vellinum og fengum frábært færi sem fór í þverslánna og út. Svoleiðis hefur þetta verið hjá okkur undanfarið, stöngin út í staðin fyrir stöngin inn en við verðum bara að halda áfram,“ endaði Kristján á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira