Íslenski boltinn

Geta unnið sinn fimmta leik í röð í kvöld: „Þurfum að vera ofan á í bar­áttu og vilja“

Aron Guðmundsson skrifar
Leikmenn FH fagna marki í sumar.
Leikmenn FH fagna marki í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Athyglisverð viðureign mun eiga sér stað á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í tíundu umferð Bestu deildar kvenna í kvöld þegar spútniklið deildarinnar til þessa, nýliðar FH, taka á móti Þrótti Reykjavík. Ljóst er að sigri annað hvort liðið í kvöld, þá mun það lið lyfta sér upp í 3. sæti deildarinnar.

„Stemningin hjá okkur í FH-liðinu er virki­lega góð og leikur kvöldsins leggst mjög vel í okkur,“ segir Sunn­eva Hrönn Sigurvinsdóttir, fyrirliði FH í sam­tali við Vísi í dag. „Við erum búnar að fara vel yfir leik­planið og það hvernig við munum nálgast leikinn. Við mætum því vel fókuse­raðar og til­búnar í kvöld.“



FH hefur verið á blússandi siglingu í Bestu deild kvenna undan­farið, liðið er á fjögurra leikja sigur­göngu og getur með fimmta sigrinum í kvöld lyft sér upp í þriðja sæti deildarinnar. Hvað þarf liðið að gera til þess að svo fari?

„Fyrst og fremst þurfum við bara að vera ofan á í bar­áttu og vilja líkt og við höfum sýnt í síðustu leikjum og fylgja leik­planinu. Ef það gengur vel þá munum við ná inn öðrum sigri.“

FH er eitt af spút­nikliðum tíma­bilsins til þessa. Liðið er ný­liði í Bestu deildinni og var í flestum spám spáð fall­sæti, spá sem virðist ekki ætla að raun­gerast núna.

Hefur FH liðið verið að nýta sér þessar spár til þess að móti­vera sig?

„Við vorum svo sem ekkert mikið að pæla í þessum spám. Við erum að koma inn sem ný­liðar og því kom það okkur ekkert á ó­vart að vera spáð fall­sæti en frammi­staða okkar á tíma­bilinu hingað til hefur ekkert komið okkur á ó­vart.

Við búum yfir virki­lega sterkum og breiðum leik­manna­hóp sem og sterkri liðs­heild og vitum vel hvað í okkur býr.“

And­stæðingur kvöldsins, Þróttur Reykja­vík, hefur verið í smá brekku undan­farið. Liðið er án sigurs í síðustu tveimur leikjum sínum í deildinni og féll á dögunum úr leik í Mjólkur­bikarnum með tapi gegn Breiða­bliki.

Við hvernig Þróttara liði býst þú í kvöld?

„Þær eru með virki­lega flott lið og eru vel spilandi. Þá eru ein­stak­lings­gæði þarna sem geta valdið miklum usla. Við þurfum bara að mæta vel til­búnar til leiks og pressa vel á þær. Við megum ekki gefa þeim mikinn tíma á boltanum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×