Erlent

Fox hótar Carl­son lögsókn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tucker Carlson var sagt upp hjá Fox News í apríl.
Tucker Carlson var sagt upp hjá Fox News í apríl. AP

Lögmenn fréttamiðilsins Fox News krefjast þess að sjónvarpsmaðurinn Tucker Carlson hætti birtingu á nýrri þáttaröð hans, sem nýverið kom út á samfélagsmiðlinum Twitter. Carlson lauk nýlega störfum hjá Fox.

Í frétt AP kemur fram að Tucker Carlson hafi verið sagt upp hjá Fox í lok apríl síðastliðins, nokkrum dögum eftir að fréttamiðillinn samþykkti að greiða fyrirtækinu Dominion, sem framleiðir kosningavélar, 107 milljarða króna í skaðabætur vegna meiðyrða.

Fox hafði haldið því fram að kosningavélar Dominion væru stilltar til þess að vinna gegn Trump í forsetakosningunum 2020. Dominion beið mikinn skaða af, að sögn forsvarsmanna.

Í dómsskjölum kom fram að Carlson hafi talað illa um Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í skilaboðum og tölvupóstum til vina og samstarfsmanna. Til að mynda sagðist hann á tímapunkti hata hann út af lífinu.

Eftir brotthvarf hans frá Fox hóf Carlson að birta þætti á samfélagsmiðlinum Twitter sem heita Tucker on Twitter. Þar viðrar hann þá skoðun að honum finnist Twitter eini eftirstandandi vefmiðillinn þar sem tjáningarfrelsi er við lýði auk þess sem hann fordæmir fréttamiðla.

Í kjölfar birtingar þáttanna hafa lögmenn Fox News sakað Carlson um brot á samningi hans við miðilinn, sem rennur út árið 2025. Í samningnum eru strangar reglur um framkomu Carlson í öðrum fjölmiðlum. Fox News hefur nú hótað að lögsækja Carlson vegna Twitter-þáttanna. 


Tengdar fréttir

Sagðir hafa ráðið sama lögmanninn

Fjölmiðlamennirnir Tucker Carlson og Don Lemon eiga það sameiginlegt að hafa báðir misst vinnuna í gær. Carlson hætti hjá Fox News og Lemon var rekinn frá CNN. Það er þó ekki það eina sem þeir eiga sameiginlegt því þeir eru sagðir hafa báðir ráðið sama stjörnulögmanninn til að hjálpa sér vegna starfslokanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×