Erlent

„Njósna­mjaldurinn“ skýtur upp kollinum í Sví­þjóð

Kjartan Kjartansson skrifar
Óbreyttur mjaldur við Svalbarða.
Óbreyttur mjaldur við Svalbarða. Vísir/Getty

Sænsk yfirvöld klóra sér nú í kollinum yfir því hvað þau eigi að gera með mjaldurinn Hvaldímír, grunaðan njósnara í þjónustu Vladímírs Pútín Rússlandsforseta, eftir að hann lét sjá sig við strendur landsins nýlega. Talið er að mjaldurinn sækist enn eftir samskiptum við menn.

Meinti „njósnamjaldurinn“ komst í heimsfréttirnar þegar hann vingaðist við norska veiðimenn undan ströndum Finnmerkur í Norður-Noregi árið 2019. Mjaldurinn reyndist vera með beisli sem á var letrað að tilheyrði Pétursborg í Rússlandi. 

Kviknaði þá grunur um að mjaldurinn hefði verið hluti af tilraunum Rússa til að þjálfa sjávardýr til njósna. Rússnesk stjórnvöld hafna því þrátt fyrir að varnarmálaráðuneytið hefði á sínum tíma auglýst eftir höfrungum til þeirra nota, að sögn Washington Post. Önnur tilgáta er að mjaldurinn hafi verið þjálfaður til að hjálpa andlega veikum rússneskum börnum.

Síðan þá hefur Hvaldímír, eins og hann var kallaður, að mestu haldið sig við Finnmörk, nærri landamærunum Noregs og Rússlands. Hann skaut hins vegar upp kollinum í Oslóarfirði sem norska höfuðborgin stendur við í síðustu viku. Norska fiskistofan varaði sjómenn við því að nálgast hvalinn af ótta við að hann gæti slasast eða drepist af völdum bátaumferðar.

Nú síðast sást Hvaldírmír við strendur Svíþjóðar. Samtökin OneWhale, sem voru stofnuð sérstaklega um velferð mjaldursins, segjast hafa verið í sambandi við sænsk yfirvöld sem hafi strax gripið til aðgerða til þess að vernda hann. Þau hafi meðal annars lokað brú í því skyni.

Þegar sýnt fram á klókindin

Vanessa Pirotta, dýrafræðingur og fyrrverandi þjálfari villtra sjávardýra, segir Washington Post, að líklega sæki Hvaldímír enn í mannfólk eftir að hann var þjálfaður af mönnum. Mjaldrar séu félagslynd dýr sem haldi sig gjarnan í torfum í náttúrunni.

Deilt hefur verið um hvað eigi að gera með Hvaldímír. OneWhale vilja að stofnað verði griðarsvæði fyrir hann þar sem hægt verði að endurhæfa hann og sameina hann svo villtum mjöldrum. Norsk yfirvöld hafa ekki áhuga á að fanga Hvaldímír en það gæti breyst ef hann heldur áfram að leita í þéttbýlissvæði.

Pirotta segir að það yrði skref aftur á bak að fanga Hvaldímír. Aðstæður hans séu alls ekki svo slæmar. Hann hafi þegar sannað klókindi sín með því að veiða sér sjálfur til matar og forðast hættulega árekstra við menn og fley þeirra.


Tengdar fréttir

Mjaldurinn líklega ekki njósnari heldur þroskaþjálfi

Mjaldurinn sem fannst úti fyrir Finnmörk í Noregi í lok apríl virðist ekki vera njósnari á vegum rússneska sjóhersins, líkt og talið var í fyrstu, heldur hafi hann verið notaður við meðferð á andlega veikum börnum í Rússlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×