Erlent

Söngvari Ramm­stein sakaður um byrlun

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Konan segir að Lindemann hafi falast eftir kynlífi undir sviðinu og reiðst þegar það gekki ekki.
Konan segir að Lindemann hafi falast eftir kynlífi undir sviðinu og reiðst þegar það gekki ekki. Getty/Twitter

Kona að nafni Shelby Lynn hefur sakað Till Lindemann, söngvara þýsku þungarokkshljómsveitarinnar Rammstein, um byrlun. Í yfirlýsingu hljómsveitarinnar er ásökununum hafnað.

Lynn skrifaði um málið á bæði Twitter og Instagram síðum sínum á föstudag. Segir hún að bæði Lindemann sjálfur og starfsfólk hans hafi tekið þátt í byrluninni á tónleikum í borginni Vilníus í Litháen mánudaginn 22. maí.

Segist Lynn hafa verið valin af konu að nafni Aleena Makeeva, sem starfar fyrir Rammstein, til að vera í sérstakri röð aðdáanda, svokölluð o röð, á milli sviðsins og annarra tónleikagesta. Samkvæmt auglýsingu á Reddit rás Rammstein gátu aðeins laglegar stúlkur átt möguleika að komast í þessa o röð. En þær sem voru valdar fengu ókeypis miða á tónleikana, fengu að hitta Till Lindemann fyrir þá og boð í eftirpartí.

Fékk hún svo að vita það frá partíhaldaranum, Joe Letz, fyrir tónleikana að Lindemann vildi hitta hana sérstaklega í partíinu. Spurði hún hvort hann væri að falast eftir kynlífi sagði Letz svo ekki vera. „Nei, ekkert þannig. Till er herramaður,“ á Letz að hafa sagt. Hana grunaði þó að það væri raunin og ræddi það við hinar stúlkurnar sem valdar voru sem tóku undir grunsemdirnar.

Leidd undir sviðið

Það næsta sem gerist er að Lindemann, sem er sextugur að aldri, mætir á svæðið og skenkir tekíla fyrir stúlkurnar. Fær Lynn einnig Red Bull með vodka og Prosecco freyðivín. Síðan fer Lindemann til að syngja á tónleikunum.

Lynn segist hafa verið algerlega út úr heiminum á meðan tónleikunum stóð og ekki munað eftir miklu. Grunar hana að lyf hafi verið sett út í áfengið sem Lindemann gaf henni.

Í tónleikahléi hafi henni verið beint að litlu rými undir sviðinu, þangað sem Lindemann kom. Hafi hann falast eftir kynlífi en Lynn neitað. „Joe sagði að þú myndir!“ á Lindemann að hafa hrópað þá en síðan stormað í burtu í reiðikasti og klárað seinni helming tónleikana.

Marblettir og uppköst

Eftir tónleikana fór Lynn í eftirpartíið og var með hinum stúlkunum. Segist hún hafa kastað upp og farið svo á hótelið sitt. Þar tók hún eftir marblettum á sér og magauppköstin héldu svo áfram.

Daginn eftir segist hún hafa heyrt það frá öðrum stúlkum í röð o að svipaðir hlutir hafi gerst. Keypti hún þá lyfjapróf sem reyndist þó vera neikvætt.

Ekki í okkar umhverfi

Í gær birti Rammstein yfirlýsingu vegna málsins þar sem ásökununum er hafnað.

Rammstein hafnar ásökununum.Getty

„Varðandi ásakanirnar sem eru í gangi á internetinu varðandi tónleikana í Vilníus getum við útilokað að það sem sagt er hafi gerst eig við um okkar umhverfi,“ segir í yfirlýsingunni. „Við vitum ekki af neinni opinberri rannsókn málsins.“

Málið hefur verið mikið rætt á samfélagsmiðlum, meðal annars á Reddit síðu Rammstein. Þar segjast sumir hafa heyrt sambærilegar sögur úr fortíðinni en aðrir draga frásögn Lynn í efa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×