Erlent

Rússar gefa út hand­töku­skipun á hendur glað­beittum Graham

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Repúblikaninn Graham er einn dyggasti stuðningsmaður Úkraínumanna vestanhafs.
Repúblikaninn Graham er einn dyggasti stuðningsmaður Úkraínumanna vestanhafs. Getty/Alex Wong

Rússar hafa gefið út handtökuskipun á hendur bandaríska öldungadeildarþingmanninum Lindsey Graham, sem virðist í klipptu myndskeiði fagna dauða rússneskra hermanna.

Myndskeiðið var birt af skrifstofu Vólódimírs Selenskís Úkraínuforseta eftir fund hans og Graham í Kænugarði á föstudag. Á myndskeiðinu heyrist Gramham kalla fjárhagsaðstoð Bandaríkjamanna til handa Úkraínu bestu fjárfestinguna sem þeir hafa lagt í.

Þá minnist hann á að rússneskir hermenn séu að deyja.

Graham sagði á Twitter í gær að það hefði glatt hann mjög að heyra hversu mikið stuðningur hans við Úkraínu færi í taugarnar á stjórnvöldum í Moskvu. Þá sagði hann um handtökuskipunina að hann myndi beygja sig undir vald Alþjóðaglæpadómstólsins ef Vladimir Pútín og félagar hans gerðu slíkt hið sama.

Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar, sagði um ummæli Graham að hann gæti ekki ímyndað sér verri skömm fyrir nokkuð ríki en að eiga öldungadeildarþingmann eins og hann.

Eftir að Rússar létu óánægju sína í ljós birtu Úkraínumenn myndskeiðið óklippt en þar mátti sjá að ummælin um fjárhagsaðstoðina annars vegar og dauða rússneskra hermanna hins vegar voru ekki látin falla í samhengi.

Þannig var Graham að rifja upp hvernig margir hefðu ekki talið að Úkraínumenn myndu standa í lappirnar nema í nokkra daga eftir innrásina þegar hann sagði að þess í stað væru það nú Rússar sem væru að falla á vígvellinum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rússar láta Graham æsa sig upp en hann vakti mikla reiði í Mosvku í fyrra þegar hann sagði á Twitter að eina leiðin til að binda enda á innrás Rússa í Úkraínu væri að „taka út“ Pútín.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×