Veður

„Kominn tími til að starta sumrinu“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Sigurður Þ. Ragnarsson segir að búast megi við góðu veðri hér á landi um mánaðarmótin. Fólk megi þó ekki fagna alltof snemma.
Sigurður Þ. Ragnarsson segir að búast megi við góðu veðri hér á landi um mánaðarmótin. Fólk megi þó ekki fagna alltof snemma. Vísir/Vilhelm

Mohammed Emin Kizilkaya veðurfræðiáhugamaður spáði því í vikunni að Íslendingar mættu eiga von á góðu veðri í kringum næstu mánaðarmót. Sumarið væri á leiðinni til landsins. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur segir að Mohammed hafi ýmislegt til síns máls.

„Það verður að viðurkennast að það sem hann er að segja er alveg sjáanlegt í kortunum,“ segir Sigurður, sem er gjarnan kallaður Siggi Stormur, í samtali við Reykjavík síðdegis í dag. 

Mohammed sagði að búast mætti við allt að tuttugu og fimm gráðu hita á Austurlandi þann 28. maí næstkomandi. „Hann er líka að segja nokkuð rétt frá að Austurlandið fer örugglega yfir tuttugu stigin. Ekki endilega á 28. en vel má það vera,“ segir Siggi við því. 

„Það er kannski líka rétt að taka fram að þetta er það sem við, bæði ég, Einar Sveinbjörnsson og fleiri, erum búnir að vera að tala um. Við eigum von á góðu sumri og það sem er að gerast er að þessi hæð þarna suður í höfum, hún er að senda til okkar mjög rakt suðrænt loft. Þá fáum við inn svona vestlægar áttir á meðan hún er fyrir sunnan landið og þar með er austurlandið alveg í prímaveðri.“

Siggi varar þó fólk við því að fagna alltof snemma. 

„Því við eigum eftir að þola laugardaginn sem er leiðindadagur, kaldur og leiðinlegur, og svo fer ýmislegt að gerast. Þessi hæð stefnir yfir landið og þá erum við komin með sólskin í flestum, ef ekki öllum, landshlutum.“

Siggi segir að austanvert og sunnanvert landið sé að koma best út í spánni, það er að segja fyrir síðustu dagana í maí. 

„En þetta eru afskaplega hagstæðar horfur og þetta er í anda þess sem við höfum verið að tala um. Það kemur mér svosem ekki á óvart að nú sé kominn tími til að starta sumrinu og gera það af fullum krafti.“

Siggi bendir þó á að ekki sé um að ræða endalaust hlýtt og gott veður. Það megi jafnvel búast við kuldakasti í fimm til sex daga bylgju en svo breytist veðrið aftur.

„Ég myndi alveg vilja eiga sumarhús á Austurlandi eins og þetta lítur út núna.“ 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×