Íslenski boltinn

Mál Kjartans Henry fyrir aga­nefnd KSÍ

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kjartan Henry í leik með FH.
Kjartan Henry í leik með FH. Vísir/Hulda Margrét

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, hefur vísað máli Kjartans Henry Finnbogasonar, framherja FH, til aganefndar sambandsins.

Þetta herma heimildir vefsins 433.is.

Kjartan Henry gekk í raðir FH fyrir yfirstandandi tímabil og hefur spilað vel með liðinu í Bestu deild karla til þessa. FH tapaði hins vegar 2-0 fyrir Víking í síðust umferð og kom Kjartan Henry sér í klandur þar sem hann spyrnti fætinum í átt að Birni Snæ Ingasyni.

Mikil mildi þykir að Kjartan hafi ekki hitt Birni Snæ en fótur framherjans var ekki langt frá andliti Víkingsins. Þá endaði Nikolaj Hansen með blóðnasir eftir að olnbogi Kjartans fór í andlit Danans.

Eftir leik baðst Kjartan Henry afsökunar á að hafa spyrnt löppinni upp í átt að Birni Snæ en sagði það af og frá að hann hafi viljandi gefið Nikolaj olnbogaskot.

Mál Kjartans mun nú fara fyrir aganefnd og gæti hann því átt yfir höfði sér bann vegna atvikanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×