Erlent

Hlýnun jarðar fari yfir 1,5 gráður

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Fiskar glíma við þurrka af völdum El Niño í Kaliforníu árið 2007.
Fiskar glíma við þurrka af völdum El Niño í Kaliforníu árið 2007. Getty/David McNew

Vísindamenn Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar spá því að hlýnun jarðar muni fara fram úr 1,5 gráðum á næstu fimm árum. Líkurnar á slíkri hlýnun eru í fyrsta skipti meiri en minni samkvæmt spám.

Frá árinu 2020 hefur Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) gert mat fimm ár fram í tímann á líkunum á því að hlýnun jarðar nái 1,5 gráðum á einu stöku ári. 

Fyrsta árið mátu vísindamenn stofnunarinnar tuttugu prósent líkur á því að hlýnun jarðar færi upp í 1,5 gráður á næstu fimm árum og á síðasta ári mátu þeir helmingslíkur á því. Núna í ár segja þeir líkurnar á því að hlýnun jarðar nái 1,5 gráðum vera 66 prósent.

Það er því í fyrsta skiptið sem vísindamenn meta líkurnar meiri en minni. 

Mönnum og veðurbarni að kenna

Orsakavaldarnir að þessari hækkun munu vera tveir. Annar vegar er það vegna hegðunar og útlosunar manna. Hins vegar vegna líklegrar myndunar El Niño seinna á árinu. 

El Niño er veður- og vatnsfræðilegt fyrirbæri sem á sér stað í austurhluta Kyrrahafsins á fjögurra til sex ára fresti og felst í því að yfirborðssjávarhiti verður hálfri gráðu heitari en venjulega. 

Ástæðan fyrir því að það er lögð áhersla á 1,5 gráðu hlýnun er að í Parísarsamkomulaginu sem var undirritað 2015 af 177 þjóðum þá skuldbundu þátttakendur sig til að stöðva aukningu á útblæstri og halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráðum.

Þrátt fyrir að vísindamenn WMO spái þessari hækkun segja þeir hana að öllum líkindum aðeins vera tímabundna við eitt ár. 

Verði slík 1,5 gráðu hlýnun hins vegar ekki tímabundin heldur árleg í mörg ár segja vísindamenn að það muni hafa mikil áhrif sem birtist einna helst í lengri hitabylgjum, ákafari stormum og stærri gróðureldum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×