Umfjöllun og viðtöl: Þór/KA - Breiða­blik 2-0 | Blikar sáu aldrei til sólar í Boganum

Árni Gísli Magnússon skrifar
Þór/KA vann frábæran sigur í kvöld.
Þór/KA vann frábæran sigur í kvöld. Vísir/Vilhelm

Þór/KA vann 2-0 sigur á Breiðablik í Boganum á Akureyri í dag. Hulda Ósk Jónsdóttir kom Þór/KA í forystu í fyrri hálfleik og Sandra María Jessen kláraði leikinn með marki í uppbótartíma.

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og fékk Þór/KA tvö fín færi á fyrstu 10 mínútum leiksins. Sandra María átti fyrst skot sem Telma varði í marki Blika og Sandra var svo aftur á ferðinni stuttu seinna þegar hún mætti á fjærstöngina og átti skalla sem var á leiðinni upp í bláhornið en Telma varði aftur glæsilega.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir fjöruga byrjun og lítið markvert gerðist þangað til á 28. mínútu þegar Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði frábært mark. Þór/KA tók þá snögga aukaspyrnu þar sem Sandra María fékk boltann og skipti honum langt yfir á Huldu Ósk á hægri vængnum sem kom inn á völlinn og setti boltann laglega upp í fjærhornið.

Strax eftir markið komst Breiðablik í gott færi þeegar Hafrún Rakel Halldórsdóttir fékk frían skalla við markteiginn en boltinn fór beint á Melissu í markinu.

Katrín Ásbjörnsdóttir fékk ágætis færi fyrir Blika fyrir lok hálfleiksins eins og Sandra María hjá Þór/KA stuttu seinna en markverðir liðanna vel á verði. Þór/KA leiddi því 1-0 í hálfleik.

Blikakonur komu mikið ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og héldu boltanum vel innan liðsins en náðu ekki að opna vörn Þór/KA nægilega vel. Agnes Birta og Hulda Björg voru hreint frábærar í hafsentastöðunum og sópuðu öllum boltum í burtu.

Á annarri mínútu uppbótartíman voru Blikar að sleppa í gegn en Agnes Birta átti frábæra tæklingu á síðastu stundu og bjargaði í horn.

Þegar komið var fram á þriðju mínútu uppbótartímans voru Blikar í leit að jöfnunarmarki en töpuðu boltanum og heimakonur sóttu hratt upp völlinn og Kimberley Dóra átti sendingu inn fyrir á Söndru Maríu sem var ein gegn Telmu í markinu og kláraði færið virkilega vel og tryggði Þór/KA 2-0 sigur.

Af hverju vann Þór/KA?

Þær spiluðu virkilega skipulagðan og agaðan leik og gáfu fá færi á sér en nýttu tvö af sínum færum.

Hverjar stóðu upp úr?

Hulda Ósk Jónsdóttir var frábær á hægri vængnum, skoraði fyrsta markið og lék á alls oddi.

Agnes Birta og Hulda Björg voru stórkostlegar í hafsentastöðunum hjá Þór/KA og eiga mikið hrós skilið.

Hvað gekk illa?

Blikum gekk ekki nægilega vel að finna sér góð færi í leiknum og ná ekki að skora í dag.

Hvað gerist næst?

Þór/KA mætir Þrótti sunnan heiða mánudaginn 22. maí kl. 18:00.

Breiðablik fær FH í heimsókn í Kópavoginn þriðjudaginn 23. maí kl. 19:15.

Vantaði aðeins upp á gæði hjá okkur

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, var ekki ánægður með leik síns liðs eftir 2-0 tap gegn Þór/KA í Boganum á Akureyri í kvöld.Vísir/Vilhelm

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, var ekki ánægður með leik síns liðs eftir 2-0 tap gegn Þór/KA í Boganum á Akureyri í kvöld.

„Við erum auðvitað drullusvekkt. Komandi hér vitandi að hér er alltaf erfiður leikur, þetta er vel skipulagt lið og baráttuglatt og mér fannst við vera bara of slakar í fyrri hálfleik og boltinn gekk of hægt hjá okkur og gekk illa að skapa færi. Þær ná einu upphlaupi þar sem þær komast í gegn og ná marki og þá eru þær erfiðar við að etja. Mér fannst vera meira líf í okkur í seinni hálfleik og við sóttum nánast látlaust og reyndum að bæta og bæta smám saman í og seinna markið kemur út frá því að við erum komin með allt liðið fram á við en það vantaði bara aðeins upp á gæði hjá okkur til þess að skora í dag. Því miður er það bara þannig.

Breiðablik hélt boltanum vel, sérstaklega í seinni hálfleik, en færin létu á sér standa.

„Bara hrós á Þór/KA. Bæði mjög vel skipulagðar og spiluðu varnarleikinn vel en við á móti vorum ekki alveg nógu klókar til þess að búa til þær opnanir sem við vildum.”

„Þær bara gerðu þetta vel, vörðust rosa vel, en ekkert sem kemur á óvart”, sagði Ásmundur að endingu.

„Flestar að spila sinn besta leik sem ég hef séð allavega”

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA.Vísir/Vilhelm

„Frábær. Frábær sigur, bara mjög góð” sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, aðspurður hvernig tilfinningin væri eftir 2-0 sigur á Breiðabliki á heimavelli.

Þór/KA liðið var skipulagt í dag og gaf fá færi á sér og segir Jóhann leikplanið hafa gengið upp.

„Gekk vel það sem við ætluðum að gera; að vera þéttar fyrir og breika svo og reyna nýta veikleikana hjá þeim sem eru ekki mjög margir og planið gekk mjög vel og við vorum bara frábærar. Flestar að spila sinn besta leik sem ég hef séð allavega.”

Þór/KA liðið hljóp mikið í dag og fór mikil orka í leikinn.

„Heldur betur, enda sást það alveg að leikmenn voru orðnir mjög þreyttir, og ég tala ekki um líka eins og Sandra hefur lítið sem nánast ekkert náð að æfa milli leikja vegna höggsins sem hún fékk og var búin með orkuna en þær fundu allar aðeins auka orku og ég er gríðarlega ánægður með eina sem spilaði hérna 90 mínútur veik alveg að drepast, hún Jakobína, var eins og hetja í leiknum en ég get ekki sagt neitt en annað en hver einasta lagði líkama og sál í þetta og eiga þessa uppskeru svo sannarlega skilið.”

Agnes Birta Stefánsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir spiluðu saman í hafsentastöðunum í dag og virðast ná mjög vel saman.

„Bara mjög ánægður með það. Þær eru báðar rosalegir fótboltahausar og lesa leikinn vel og hafa lagt mjög hart að sér að komast í frábært stand og við gætum ekki verið ánægðari með það. Dominique í hægri bakverðinum á móti sterkum leikmanni eins og Öglu Maríu spilar leikinn óaðfinnanlega nánast þannig varnarlínan öll í heild frábær.”

Þór/KA hefur haldið hreinu í þremur af fjórum leikjum sínum hingað til sem boðar alltaf gott.

„Þessir frábæru þrír sigrar hjá okkur líta rosalega vel út en svo þegar maður leggst á koddann þá gera þeir líka það að verkum að fyrsti heimaleikurinn okkar lítur mjög illa út en þessi þrjú hreinu lök eru mjög öflug og við erum rosalega stolt af því.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira