Umfjöllun og viðtöl: Þróttur - Stjarnan 1-1 | Allt jafnt í Laugardalnum

Hekla Dögg Guðmundsdóttir skrifar
Jasmín Erla skoraði mark Stjörnunnar í kvöld.
Jasmín Erla skoraði mark Stjörnunnar í kvöld. Vísir/Vilhelm

Þróttur Reykjavík og Stjarnan gerðu 1-1 jafntefli í 3. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Jasmín Erla Ingadóttir skoraði mark gestanna eftir 37 mínútur, og jafnaði Sæunn Björnsdóttir fyrir hönd Þróttar á 55 mínútur.

Þróttur var með fullt hús stiga fyrir leikinn í kvöld, og dugði jafnteflið til að komast á topp deildarinnar, en Þróttur er með betri markatölu en Valur, sem er í öðru sæti eins og stendur. Stjarnan hafði tapað einum leik og unnið einn fyrir leikinn við Þrótt, og aðeins skorað eitt mark.

Þetta var í raun tíðindalítill leikur. Bæði lið byrjuðu rólega, og spiluðu mikið í gegnum bæði miðju og hægri kant. Þróttur hélt boltanum vel og náðu að skapa þónokkur færi í fyrri hálfleik, sem ekkert varð út, og kom í raun á óvart að Stjarnan varð fyrri til að skora. 

Gunnhildur Yrsa náði í gegn á vinstri kanti og renndi boltanum snyrtilega fyrir á Jasmín Erlu sem að er staðsett á réttum stað á réttum tíma og nær boltanum í hægra hornið á bak við markmann Þróttar, Írisi Dögg Gunnarsdóttur. 

Stjarnan var svo grátlega nálægt því að komast í 0-2 rétt fyrir leikhlé eftir skot frá Anítu Ýr Þorvaldsdóttir, en boltinn vildi ekki inn í þetta skipti.

Mark heimaliðsins kom á 55. mínútu, en Sæunn Björnsdóttir var búin að eiga þónokkur færi í leiknum þegar boltinn vildi svo loksins inn. Hún skoraði af miklu öryggi í fjærhornið eftir glæsilega sendingu frá Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur.

Af hverju endaði leikurinn í jafntefli?

Bæði lið voru frekar hlédræg, sem gerði að verkum að færin urðu færri en þau hefðu átt að vera í þessum leik. Þróttur var meira með boltann í fyrri hálfleik, sem og byrjun seinni hálfleiks, en misstu dampinn undir lok leiks.

Hverjar stóðu upp úr?

Sæunn Björnsdóttir stóð upp úr í kvöld. Hún skapaði færi eftir færi fyrir lið Þróttar, og skoraði mark heimaliðsins. Einnig á Jasmín Erla hrós skilið, en hún skapaði þónokkur færi fyrir gestina, sem og átti mark þeirra.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum skorti það að klára færin sín. Þróttur átti fleiri færi á markið en Stjarnan, og einungis eitt þeirra fór inn. Stjarnan átti í erfiðleikum með að hitta á markið,

Hvað gerist næst?

Þróttur fer í heimsókn til Vestmannaeyja, og á leik við ÍBV þann 15. Maí og hefst leikurinn klukkan 18.00, en Stjarnan fær Val í heimsókn í Garðabæinn næsta þriðjudag, 16. Maí klukkan 19.15.

Vonsvikinn eftir jafntefli á heimavelli

Nik var ekki sáttur.Vísir/Diego

„Ég er vonsvikinn yfir því að hafa ekki náð í þrjú stig í kvöld, en við fengum á okkur mark í fyrri hálfleik, og náðum að jafna, svo ég er sáttur,“ sagði Nik Chamberlain þjálfari Þróttar Reykjavíkur eftir leik.

„Mér fannst við þó eiga að ganga frá velli með þrjú stig, en Stjarnan er erfitt lið að spila á móti og við duttum aðeins úr gír eftir markið gegn okkur“, sagði Nik.

„Allir lögðu sitt af mörkum í kvöld og stóð vörnin sterk. Þrátt fyrir að við fengum mark á okkur, þá spiluðu þær eins og ein heild. Það að spila á móti Stjörnunni er svolítið eins og að tefla, eða í hnefaleikum. Hvert lið fær að ýta aðeins á takka andstæðingsins, þar til einhver sigrar, og eru allir í raun að bíða eftir rothögginu. Í kvöld voru það ekki við sem slógum rothöggið, en vonandi í næsta leik“, sagði Nik.

Þróttur fer í ferðalag fyrir næsta leik, en liðið mætir ÍBV í Vestmannaeyjum þann 15. Maí næstkomandi.

„Leikurinn á móti ÍBV verður allt öðruvísi en þessi. Það að spila á grasi er ákveðin kúnst, og verðum við að sjá til hvernig fer þegar við mætum á svæðið. En eitt er fyrir víst að sá leikur verður allt öðruvísi en sá sem við spiluðum hér í kvöld“, sagði þjálfari Þróttar að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira