Innlent

Lög­regla fundar með fjölskyldu hinnar látnu í dag

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Lögregla mun funda með aðstandendum hinnar 28 ára gömlu Sofiu Sarmite Kolesnikova í dag og í kjölfarið er von á tilkynningu vegna málsins
Lögregla mun funda með aðstandendum hinnar 28 ára gömlu Sofiu Sarmite Kolesnikova í dag og í kjölfarið er von á tilkynningu vegna málsins Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurlandi telur sig vera komna með nokkuð skýra mynd af atburðarrásinni sem leiddi til andláts konu á Selfossi í síðustu viku. Farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir öðrum af tveimur mönnum sem handteknir voru í tengslum við andlátið en hinum hefur verið sleppt. Lögregla mun funda með aðstandendum hinnar látnu í dag. 

Í samtali við fréttstofu segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn að von sé á tilkynningu vegna málsins síðar í dag. Lögregla mun funda með aðstandendum hinnar 28 ára gömlu Sofiu Sarmite Kolesnikova í dag og upplýsa þau um stöðu rannsóknarinnar.  Sofia fannst látin í heimahúsi á Selfossi þann 29. apríl síðastliðinn. 

Sveinn Kristján segir lögreglu komna með nokkuð skýra mynd af atburðarrásinni sem leiddi til andláts Sofiu en eitthvað eigi eftir að skýrast betur. Bráðabirðaniðurstöður úr krufningu liggja fyrir. 

Í gærkvöldi var farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir öðrum mannanna sem handteknir voru í tengslum við málið. Sveinn Kristján segir að það hafi verið gert vegna rannsóknarhagsmuna. 

Aðspurður um hvaða lagagrein maðurinn sé grunaður um að hafa brotið vildi Sveinn Kristján ekki tjá sig um það en sagði að það kæmi væntanlega fram í yfirlýsingu sem lögregla mun senda frá sér síðdegis.

Ákvörðun um áframhaldandi gæsluvarðhald liggur fyrir síðdegis

Maðurinn verður leiddur fyrir dómara síðdegis sem tekur ákvörðun um hvort gæsluvarðhaldið verði staðfest. Hinum manninum var sleppt úr haldi í gær. 

Mennirnir eru báðir á þrítugsaldri og samkvæmt heimildum fréttastofu eru þeir hálfbræður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×