Íslenski boltinn

Langversta byrjun KR undir stjórn Rúnars Kristinssonar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson gæti setið í fallsæti eftir leiki kvöldsins.
Rúnar Kristinsson gæti setið í fallsæti eftir leiki kvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

KR-ingar hafa tapað þremur leikjum í röð í Bestu deild karla í fótbolta og það án þess að skora eitt einasta mark.

Þetta er tíunda tímabilið þar sem Rúnar Kristinsson stýrir liðinu frá byrjun móts og þetta er langversta byrjun liðsins undir hans stjórn.

KR tapaði 1-0 á móti nýliðum HK í gær en hafði áður tapað 3-0 á móti bæði Víkingum og FH-ingum. Markatalan er því 0-7 á síðustu 270 mínútum liðsins í Bestu deildinni.

KR hefur samtals aðeins náð í fjögur stig af fimmtán mögulegum í þessum fyrstu fimm leikjum, er aðeins búið að skora þrjú mörk samanlagt sem er fimm mörkum færra en mótherjarnir.

Eins og áður segir er þetta ekki aðeins versta byrjun KR undir stjórn Rúnars heldur sú langversta.

Þetta er í fyrsta sinn sem liðið nær ekki sex stigum, í fyrsta sinn sem liðið skorar ekki að minnsta kosti mark í leik (5 mörk), í fyrsta sinn sem liðið tapar þrisvar í fyrstu fimm leikjum sínum og í fyrsta sinn sem liðið er í mínus í markatölu eftir fimm leiki.

Næstu leikir KR í Bestu deildinni eru á móti Val og Breiðabliki sem flestir telja séu tvö af bestu liðum deildarinnar. Það verður því mjög erfitt fyrir lærisveina Rúnars og ná í einhver stig á næstunni.

KR er í tíunda og þriðja neðsta sæti deildarinnar en nái Stjörnumenn í stig á móti Blikum í kvöld þá mun KR-liðið sitja í fallsæti eftir umferðina.

  • Fæst stig hjá KR í fyrstu umferðunum undir stjórn Rúnars:
  • 2023: 4 stig
  • 2018: 6 stig
  • 2014: 7 stig
  • 2021: 7 stig
  • 2022: 7 stig
  • Fæst mörk skoruð hjá KR í fyrstu umferðunum undir stjórn Rúnars:
  • 2023: 3 mörk
  • 2014: 5 mörk
  • 2018: 7 mörk
  • 2022: 7 mörk
  • 2020: 8 mörk
  • 2021: 8 mörk
  • Versta markatalan í fyrstu umferðunum undir stjórn Rúnars:
  • 2023: -5
  • 2018: Jafnt
  • 2014: Jafnt
  • 2021: +1
  • 2022: +2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×