Erlent

Hundrað þúsund rússneskir hermenn fallið eða særst síðan í desember

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hörðustu bardagarnir í Úkraínu hafa geisað í Bakhmut síðustu mánuði. Hér eru úkraínskir hermenn við skotgrafir sínar við bæinn.
Hörðustu bardagarnir í Úkraínu hafa geisað í Bakhmut síðustu mánuði. Hér eru úkraínskir hermenn við skotgrafir sínar við bæinn. Diego Herrera Carcedo/Anadolu Agency/Getty

Yfir tuttugu þúsund rússneskir hermenn hafa fallið og yfir áttatíu þúsund hafa særst frá því í desember síðastliðnum. Þetta fullyrða bandarísk yfirvöld.

AP fréttastofan hefur eftir talsmanni bandaríska þjóðaröryggisráðsins John Kirby að ný gögn bandarísku leyniþjónustunnar staðfesti tölur yfir mannfall Rússa. Sjálf hafa rússnesk yfirvöld ekkert gefið upp en Kirby greinir ekki frá því hvernig bandaríska leyniþjónustan komst að þessu.

Flestir hermannanna hafa fallið í hörðum bardögum í austurhluta Úkraínu við bæinn Bakhmut. Bæði Rússar og Úkraínumenn virðast leggja allt sitt í bardaga um bæinn og hafa hörðustu bardagar stríðsins farið þar fram undanfarna mánuði.

Helmingur þeirra Rússa sem fallið hafa í bardögum í Úkraínu hafa verið málaliðar á vegum Wagner Group að sögn Kirby. Eru margir þar á meðal fangar sem sleppt var úr fangelsi og gert að berjast fyrir hönd rússneskra stjórnvalda.

Segir Kirby að hermenn á vegum Wagner Group sé „hent í bardaga án nægrar þjálfunar, leiðsagnar eða skipulags.“ Hann líkir bardögum í Bakhmut við nokkra af hörðustu bardögum síðari heimsstyrjaldar.

„Þetta er þrefalt stærri tala látinna heldur en mannfall Bandaríkjanna í Guadalcanal orrustunni í síðari heimsstyrjöld og þessar tölur ná einungis til fimm mánaða,“ hefur AP fréttastofan eftir Kirby um þessar nýjustu tölur yfir mannfall Rússa.


Tengdar fréttir

Skutu fjölda eld­flauga á Úkraínu í morgun

Rússar skutu fjölda eldflauga á úkraínskar borgir í morgun. Að minnsta kosti einn lést í Kherson-héraði en 34 eru slasaðir í Dnipropetrovsk. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ræddi við varnarmálaráðherra Úkraínu símleiðis í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×