Erlent

Skutu fjölda eld­flauga á Úkraínu í morgun

Bjarki Sigurðsson skrifar
Úkraínskur hermaður tekur upp sprengjur til að skjóta úr fallbyssu nærri borginni Bakhmut í Donetsk.
Úkraínskur hermaður tekur upp sprengjur til að skjóta úr fallbyssu nærri borginni Bakhmut í Donetsk. AP/Libkos

Rússar skutu fjölda eldflauga á úkraínskar borgir í morgun. Að minnsta kosti einn lést í Kherson-héraði en 34 eru slasaðir í Dnipropetrovsk. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ræddi við varnarmálaráðherra Úkraínu símleiðis í morgun.

Morguninn hjá fjölda Úkraínumanna hófst á skot- og sprengjuhljóðum í morgun þegar Rússar skutu fjölda eldflauga á borgir Úkraínu. Borgin Pavlohrad kom verst út úr sprengingunum en þar varð mikill eldur og brunnu tugir húsa til kaldra kola. 34 slösuðust í brunanum. 

„Ég hljóp út og sá að bílskúrinn var eyðilagður. Það var kviknað í öllu, það voru glerbrot alls staðar. Ef við hefðum verið úti, þá værum við ekki á lífi,“ hefur BBC eftir Olha Lytvynenko sem býr í Pavlohrad. Var klukkan við það að ganga þrjú að nóttu til.

Var þetta í annað sinn á síðustu þremur sólarhringum sem Rússar gera eldflaugaárás fyrir sólarupprás í Úkraínu. CNN greinir frá því að varnarmálaráðuneyti Rússlands hafi tilkynnt að þeir hafi hitt öll sín skotmörk í árásunum í morgun. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræddi við Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, símleiðis í morgun. Reznikov greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni og segist hafa þakkað Þórdísi fyrir stuðning Íslands við Úkraínu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×