Erlent

Metalli­ca fyrsta hljóm­sveitin til að gefa út mynd­bönd á tákn­máli

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Metallica gefa út sína elleftu stúdíóplötu í ár.
Metallica gefa út sína elleftu stúdíóplötu í ár. Getty

Rokkhljómsveitin Metallica mun gefa öll myndböndin af komandi plötu sinni á táknmáli. Verður hljómsveitin þá sú fyrsta til þess að gefa út myndbönd á amerísku táknmáli, ASL.

Sveitin, sem hefur starfað síðan árið 1981, undirritaði samning við Samtök heyrnarlausra listamanna í Bandaríkjunum, DPAN, og framleiðslufyrirtækið Amber G Productions þann 15. apríl síðastliðinn. En það er dagur ameríska táknmálsins. Blabbermouth greinir frá þessu.

Samkvæmt samningnum verða öll myndbönd af nýrri plötu Metallica, sem ber titilinn 72 Seasons, að vera á táknmáli. En platan er ellefta stúdíóplata sveitarinnar.

Texti ekki nóg

DPAN var stofnað árið 2006 af heyrnarlausa tónlistarmanninum Sean Forbes og framleiðandanum Joel Martin til þess að gera tónlist aðgengilega fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta.

„Sem heyrnarlaus tónlistarmaður sem hef verið aðdáandi Metallica alla mína ævi er það gríðarlegur heiður að fá að starfa með bandinu og Amber G Productions til að gera alla plötuna aðgengilega á amerísku táknmáli,“ segir Forbes. Vonast hann til þess að fleiri hljómsveitir og tónlistarfólk fylgi í kjölfarið. „Það er stórt samfélag heyrnarlausra tónlistaraðdáenda sem eru tilbúnir að upplifa meiri tónlist og það að Metallica séu að gera þetta skiptir miklu máli fyrir heyrnarlausa samfélagið.“

Amber Galloway, eigandi Amber G Productions, segir að margir haldi að það sé nóg að hafa texta með myndböndum. Textinn sýni hins vegar ekki tilfinningarnar eins og táknmálið geri. „Þessi myndbönd grípa raddir hljóðfæranna,“ segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×