Íslenski boltinn

Breiða­blik lánar Ey­þór Aron Wöhler til ná­granna sinna í HK

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eyþór Aron samdi við Breiðablik síðasta haust.
Eyþór Aron samdi við Breiðablik síðasta haust. Breiðablik

Íslandsmeistarar Breiðabliks hafa ákveðið að lána framherjann Eyþór Aron Wöhler til HK. Þetta herma öruggar heimildir Vísis.

Eyþór Aron Wöhler samdi við Íslandsmeistara Breiðablik síðasta haust eftir að hafa spilað með ÍA í Bestu deild karla í knattspyrnu síðasta sumar. Þó ÍA hafi fallið þá spilaði Eyþór Aron nægilega vel til að Breiðablik vildi fá hann í sínar raðir. 

Mikið hefur verið rætt og ritað um stóran hóp Breiðabliks og nú hefur þjálfarateymið tekið þá ákvörðun að lána Eyþór Aron upp í efri byggðir Kópavogs. Nýliðar HK taka honum fagnandi þar sem liðið er heldur fámennt fram á við þó það hafi ekki komið að sök til þessa á leiktíðinni.

Eyþór Aron hefur aðeins komið sögu í einu af þremur leikjum Breiðabliks í Bestu deildinni á leiktíðinni en hann tapaði boltanum í aðdraganda sigurmarks HK í dramatískum 4-3 sigri nýliðanna á Breiðablik í 1. umferð deildarinnar. 

Framherjinn spilaði svo klukkustund í 2-0 sigri á Lengdjudeildarliði Fjölnis í Mjólkurbikarnum en mun nú spila með HK það sem eftir lifir tímabils. Hafði HK betur í baráttunni við Fylki og ÍBV en bæði lið vildu fá leikmanninn í sínar raðir.

HK er í 4. sæti Bestu deildar með 4 stig að loknum þremur umferðum á meðan Breiðablik er í 8. sæti með 3 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×