Erlent

Selenskí og Xi áttu „langt og inni­halds­ríkt“ sam­tal í morgun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí og Xi áttu gott samtal í dag að sögn fyrrnefnda.
Selenskí og Xi áttu gott samtal í dag að sögn fyrrnefnda.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti og Xi Jinping, forseti Kína, ræddu saman í síma í morgun. Um er að ræða fyrsta samtalið sem leiðtogarnir eiga frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Selenskí greindi frá því á samfélagsmiðlum að forsetarnir hefðu átt langt og innihaldsríkt samtal. Sagði hann á Twitter að samtalið, auk skipunar sendiherra Úkraínu í Kína, myndu reynast stór skref í þróun tvíhliða samskipta ríkjanna.

Ríkismiðlar í Kína sögðu að leiðtogarnir hefðu rætt átökin í Úkraínu og samskipti ríkjanna.

Selenskí hefur ítrekað lýst yfir vilja sínum til að eiga samræður við Xi. Kínverjar hafa verið duglegir við að rækta tengslin við Rússland síðustu misseri en hafa opinberlega lýst yfir hlutleysi  hvað varðar stríðið í Úkraínu.

Kínverjar hafa lagt fram friðaráætlun sem Vesturlönd hafa gefið lítið fyrir. Margir telja hins vegar að vegna sambands síns við Rússland séu stjórnvöld í Kína þau einu sem geti átt milligöngu um samkomulag til að koma á friði í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×