Erlent

Svíar reka fimm rúss­neska diplómata úr landi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Tobias Billström er utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Tobias Billström er utanríkisráðherra Svíþjóðar. Getty/Bernd von Jutrczenka

Svíar hafa ákveðið að reka fimm rússneska diplómata úr landi. Að sögn utanríkisráðherra landsins munu þeir hafa gerst uppvísir að hegðun sem samræmist ekki störfum þeirra í landinu. 

Sænska ríkisútvarpið greinir frá þessu. Er bent á það í grein þeirra að á morgun kemur út annar þáttur af Shadow War þar sem er fjallað um starfsemi Rússa á Norðurlöndunum. Í fyrsta þætti kom fram að Rússar hafi áformað að vinna skemmdarverk á sæstrengjum og vindorkubúum í Norðursjó ef til átaka kæmi við Vesturlönd.

Í dag boðuðu sænsk yfirvöld rússneska sendiherrann þar í landi, Viktor Tatarintsev, á sinn fund þar sem honum var tilkynnt að fimm starfsmönnum sendiráðsins hafi verið vikið úr landi. Mun það vera vegna þess að þeir brutu á Vínarsáttmálanum.

Stutt er síðan Norðmenn viku fimmtán rússneskum diplómötum úr landi. Var þá tilkynnt að diplómatarnir hafi í raun og veru verið starfsmenn rússneskrar leyniþjónustu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×