Erlent

Segja Rússa undirbúa skemmdarverk í Norðursjó

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rannsókna- eða njósnaskipið Vladimirsky aðmíráll.
Rannsókna- eða njósnaskipið Vladimirsky aðmíráll. mil.ru

Samkvæmt rannsókn ríkismiðlanna DR í Danmörku, NRK í Noregi, SVT í Svíþjóð og Yle í Finnlandi áforma Rússar að vinna skemmdarverk á sæstrengjum og vindorkubúum í Norðursjó ef til átaka kemur við Vesturlönd. 

Fyrsti þáttur af nokkrum um rannsókn miðlanna verður sýndur í kvöld en í þættinum kemur meðal annars fram að Rússar starfræki flota af njósnafleyjum í Norðursjó, sem séu dulbúin sem rannsóknar- eða fiskiskip. 

Fleyin eru sögð vinna að því að kortleggja möguleg skotmörk.

Haft er eftir heimildarmanni innan dönsku leyniþjónustunnar að um sé að ræða þátt í undirbúningi Rússa fyrir þann möguleika að stríð brjótist út milli Rússlands og Vesturveldanna. Yfirmaður öryggisþjónustu Norðmanna segir áætlunina mikilvæga Rússum og stjórnað beint frá Moskvu.

Umfjöllunin í kvöld mun fylgja eftir einu af „draugaskipum“ Rússa, sem fara um án þess að senda út staðsetningu sína. Skipið, Vladimirsky aðmíráll, er formlega skilgreint sem rannsóknarskip en samkvæmt miðlunum er það í raun og veru njósnaskip.

Ferðir skipsins voru meðal annars raktar að sjö vindorkubúm undan ströndum Bretlands og Hollands, þar sem skipið hægir á sér og siglir um í nokkrun tíma án þess að gefa upp staðsetningu sína.

Blaðamenn reyndu að nálgast skipið á litlum bát og mættu þá grímuklæddum manni með árásarriffil.

Umfjöllun DR.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×