Erlent

Sanna hættir sem for­maður

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sanna Marin hefur setið á finnska þinginu síðan árið 2015 og gegnt stöðu formanns Jafnaðarmannaflokksins síðan árið 2020.
Sanna Marin hefur setið á finnska þinginu síðan árið 2015 og gegnt stöðu formanns Jafnaðarmannaflokksins síðan árið 2020. Getty/Nicolas Economou

Sanna Marin, fráfarandi forsætisráðherra Finnlands, hefur sagt af sér sem formaður Jafnaðarmannaflokksins í landinu. Að öllum líkindum mun Petteri Orpo taka við sem forsætisráðherra landsins á næstu dögum. 

Í finnsku þingkosningunum sem fram fóru um helgina fékk flokkur Sönnu 43 þingmenn en Sambandsflokkurinn fékk 48 þingmenn af tvö hundruð. Þjóðernisflokkurinn Finnaflokkurinn fékk 46 þingmenn. 

Játaði Sanna Marin ósigur og óskaði Petteri Orpo, formanni Sambandsflokksins, til hamingju með sigurinn. Mun hann leiða stjórnarmyndunarviðræður og er hefðin sú að formaður vinsælasta flokksins verði forsætisráðherra. 

Yle greinir frá því að Sanna Marín hafi tilkynnt að hún muni segja af sér sem formaður Jafnaðarmannaflokksins á morgun. Hún hafði ekkert tjáð sig um stöðu sína eftir kosningarnar fyrr en nú. 

Hún segir ákvörðun sína ekki eingöngu koma til vegna sigurs Orpo en hún mun halda áfram að vera óbreyttur þingmaður á finnska þinginu. Hún segir síðastliðið ár hafa reynst sér mjög erfitt og vildi hún nýta tækifærið til að stíga til hliðar. 

Flokkurinn er í viðræðum við Sambandsflokkinn um sæti í ríkisstjórninni en Sanna mun halda áfram að leiða flokkinn í þeim viðræðum að eigin sögn. Formlegar viðræður geta þó ekki hafist fyrr en föstudaginn eftir páska. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×